Píslarganga og helgiganga í Dýrafirði á páskadag

Frá upphafi helgigöngunnar. Sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir fremst á myndinni. Aðsend mynd.

Tuttugu manns tóku þátt í tveimur göngum á vegum Þjóðkirkjunnar í Dýrafirði á páskadag. Í 25 km langri píslargöngu gengu fjórir, en gengið var frá Lambadal í Mýrasókn fyrir Dýrafjörð og út á Þingeyri. Göngustjóri var Þórir Örn Guðmundsson. Hófst gangan um kl 9 að morgni og tók rétt um 5 klst.

Sr Hildur Inga Rúnarsdóttir sóknarprestur segir  að göngumenn hafi fengið gott veður fyrir innan brú „en svo þegar þau komu að Kjaransstöðum fór veðrið að segja til sín, en það vildi til að mótvindurinn var í bakið eins og einhver sagði hér um árið. Þau notuðu líka tækifærið og gengu eftir nýja vegstæðinu frá Dýrafjarðargöngum að Dýrafjarðarbrú.“

 

Þá var einnig helgiganga sama dag. Var gengið frá bænhúsatóftum á Kirkjubóli í Kirkjubólsdal og þaðan inn að Þingeyri. Gangan er um 5 km og tók um 1 klst. Í göngunni voru 16 þátttakendur, sem er heldur færra en undanfarin ár að sögn Hildar Ingu. „Gangan hófst á því að lesið var og sungið upp úr passíusálmum H.P. Það blés heldur meir á okkur og bleytti en þau í píslargöngunni.“

Að lokinni göngunum var fólki boðið upp á fiskisúpu og brauð í Stefánsbúð.

Frá Píslargöngunni.
Aðsend mynd.
DEILA