Patreksfjörður: leikskólabörn flutt í Grunnskólann

Patreksskóli. Mynd: Grunnskoli Patreksfjarðar.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt að elstu börnunum á leikskólastiginu sem fædd eru 2014 verði kennt í Patreksskóla haustið 2019. Segir í samþykkt bæjarstjórnar að ákvörðun bæjarstjórnar „byggir m.a. á því að mörg sambærileg fordæmi er að finna í öðrum nágranna sveitarfélögum, s.s. hjá Grundarfjarðarbæ og Ísafjarðarbæ og hefur slíkt fyrirkomulag gefist vel.“

Ástæðan er sú að börnum fjölgar mikið í sveitarfélaginu og að ekki er nægilegt pláss í Arakletti, leikskólanum á Patreksfirði til þess að mæta fjölguninni. Haft hefur verið samráð við foreldra og kennara Patreksskóla samkvæmt því sem fram kemur í fundargerðinni.

Bæjarstjórn fól bæjarráði að skipa framkvæmdahóp sem heldur utan um innleiðingu og framkvæmd breytinganna í samráði við skólastjórnendur. Þá er bæjarráði falið að leggja mat á kostnað við breytingarnar. Ekki kemur fram hvort um er að ræða tímabundna breytingu eða til lengri tíma.

DEILA