Patreksfjörður: kennarar leggjast gegn skólabreytingu

Patreksskóli. Mynd: Grunnskoli Patreksfjarðar.

Kennarar við Patreksskóla leggjast gegn því að færa einn aldurhóp á leiksskólastigi í húsnæði Patreksskóla. Þetta emur fram í bréfi þeirra til bæjarstjórnar dags. 8. apríl. Hvetja þeir bæjarstjórnina til þess að leita annarra leiða til lausnar á húsnæðisvanda leikskólans Arakletts en að taka húsnæði af Patreksskóla. Telja kennararnir ekki réttlætanlegt að stofna í hættu árangri eða jafnvel þurrka út allan árangur af breyttum kennsluháttum og innleiðingu nýrrar námskrár. Finnst kennurunum ótækt að yngsta stig Patreksskóla sé slitið í sundur eins og felst í tillögum starfshóps. Er það þeirra faglega mat að tillögurnar séu slæmar fyrir yngsta stigið í Grunnskólanum, auk þess að þeir telja að sér þrengt með skerðingu á húsnæðinu. Þá muni breytingin hafa veruleg áhrif á Grunnskólann.

Haldinn var fundur starfshópsins með starfsmönnum Arakletts og Patreksskóla og tók bæjarstjórn sína ákvörðun að þeim fundi loknum.

Bókað er að bæjarstjórn leggi „áherslu á það að við framkvæmdir við húsnæði Patreksskóla verði litið til þess að yngsta stig Patreksskóla 0. – 4. bekkur verði í sömu byggingu til að tryggja það góða og faglega starf sem fram fer á yngsta stigi grunnskólans“ og síðan skipaður framkvæmdahópur sem á að halda utan um innleiðingu og framkvæmd breytinganna í samráði við skólastjórnendur.

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að breytingin að færa 5 ára börn undir Patreksskóla sé hugsuð sem langtímalausn „enda fyrirséð að árgangarnir fari stækkandi sem er ákaflega gleðilegt.“ Þá liggi ekki fyrir á þessari stundu áæltanir um frekari samþættingu á grunnskóla og leikskóla.

 

 

DEILA