Óverulegur árangur af banni við lúðuveiðum

Inga Sæland, alþm.

Inga Sæland alþm. segir að í svari sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn hennar um lúðveiðar komi fram að „ekki er að sjá að friðunaraðgerðir hafi skilað miklum árangri enn sem komið er a minnsta kosti. Stofninn virtist taka smá kipp upp á við 2012-2015 en síðan hefur þetta dalað eins og sjá má á meðfylgjandi mynd“.

Tilgangur fyrirspurnarinnar var að grennslast fyrir um veiðar og stöðu lúðustofnsins en hann hefur verið alfriðaður fyrir veiðum síðan 2012 og sjómönnum gert að sleppa lifandi lúðum seim þeir fanga aftur í sjóinn.

Þar kemur meðal annars fram að landað var og skráð 565 tonnum af lúðu frá því veiðibannið tók gildi til loka árs í fyrra. Langmest af þessari lúðu var veidd í botnvörpu eða 80% af samalagðri heild yfir árabilið. Síðan veiddust 9% í dragnót, 2% á línu og 8% í önnur veiðarfæri. Þetta eru miklar breytingar frá 2010 þegar 46% lúðuaflans voru veidd á svokölluð haukalóð sem er sérstök lína til lúðuveiða.

Í svarinu segir nánar um árangurinn: „Allir árgangar eftir 1990 hafa verið langt innan við helmingur af meðalstærð árganga fyrir þann tíma. Þrátt fyrir þetta má sjá að lífmassavísitala lúðu jókst hratt 2012–2015, en lífmassavísitalan er þó lág í sögulegu samhengi.
Ástand lúðustofnsins hefur því batnað lítillega eftir að gripið var til aðgerða til verndar
stofninum. Hins vegar ber þess að geta að sá hluti lúðustofnsins sem heldur sig uppi á landgrunninu er fyrst og fremst ung og ókynþroska lúða. Lúða verður kynþroska seint eða 9–10 ára og því verða áhrif bannsins lengi að koma fram.“

 

DEILA