Mikilvægt skref í tengingu Vestfjarða -ON opnar hlöðu í Búðardal

Á myndinni er Aldís Valdimarsdóttir, starfsmaður ON og Jón Markússon, rafbílaeigandi og íbúi í Búðardal. Aðsend mynd.

Orka náttúrunnar opnaði fyrir páskahelgina rafmagnshleðslu fyrir rafbíla í Búðardal. Fyrirtækið kýs að kalla tækið ON hlöðu,  Hlaðan stendur við Kjörbúðina og er búin tveimur hraðhleðslutengjum auk Type 2 hleðslutengis og ætti því að svara öllum þörfum rafbíla sem eru í notkun á Íslandi, segir í fréttatilkynningu frá ON.

Tengir Vestfirði við hringveginn

Ennfremur segir í tilkynningunni: „Mikil umferð ferðalanga er í gegnum Búðardal og oftar en ekki er þar fyrsta stopp þeirra sem eru á leið á Vestfirði. Má því gera ráð fyrir að ON hlaðan verði mikið notuð, bæði af íbúum sem og þeim sem leið eiga hjá. Hlaðan í Búðardal er einnig mikilvægt skref í átt að því að tengja Vestfirði við hringveginn fyrir rafbílaeigendur en hann er varðaður hlöðum ON. Auk tengingar við Vestfirði er horft til ferðamannastaða þegar kemur að uppbyggingu innviða á Vesturlandi fyrir rafbílaeigendur en í bígerð er að opna hlöður í Reykholti og í Húsafelli.“

Mikil aukning hefur verið í sölu rafbíla hér á landi og það er alveg ljóst að við erum að svara kallinu um orkuskipti í samgöngum. Drægni nýrra rafbíla fer ört vaxandi og því má búast við að fólk ferðist á rafbílum um landið í ríkari mæli“, segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ON.

DEILA