Lýðháskólinn á Flateyri óskar eftir áframhaldandi stuðningi

Lýðháskólinn á Flateyri hefur sent bæjarráði ísafjarðarbæjar erindi og óskað eftir því að samningurinn sem gerður var í fyrra verði framlengdur um eitt ár en gildandi samningur rennur út 31. maí næstkomandi, þó með þeim breytingum að skólinn þarf ekki efri hæð Grænagarðs og þarf ekki lengur á tryggingu bæjarins að halda.

Lýðháskólinn á Flateyri fékk framlag á fjárlögum (15 milljónir) og styrk frá menntamálaráðuneyti (15 milljónir) , alls 30 milljónir vegna inntöku nemenda, kennslu og rekstrar á haust misseri 2019. Til að tryggja framtíðarfjármögnun skólans mun hann þurfa framlag af opinberu fé við gerð fjárlaga fyrir árið 2020 að fjárhæð 60 milljónir króna vegna rekstrar skólans það ár. Takist það mun fjárhagsleg framtíð skólans verða trygg.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp menntamálaráðherra um lýðskóla og gert er ráð fyrir að þegar frumvarpið verður að lögum muni menntamálaráðuneyti gera langtímasamning við Lýðháskólann á Flateyri um rekstur skólans.

Í bréfinu kemur fram að skólastarf hafi gengið vel og er það ekki síst að þakka öflugum og dyggum stuðningi Ísafjarðarbæjar við verkefni sem skilgreind eru í umræddum samning.

Erindið er nú til umfjöllunar í bæjarráði.

 

 

DEILA