HS Orka væntar ákvörðunar 2019 um tengipunkt í Djúpinu

Mynd: verkis.is

Í nýútkominni árskýrslu 2018 fyrir HS Orku kemur fram að fyrirtækið á um 74% hlutafjár í Vesturverki ehf, sem undirbýr að reisa Hvalárvirkjun. Þar kemur einnig fram að gert er ráð fyrir að niðurstöður undirbúningsframkvæmda og rannsókna sem fram eiga að fara í sumar muni nýtast til að fullgera hið endanlega skipulag fyrir virkjunina. Áætlað er að þeirri skipulagsvinnu ljúki á fyrri hluta ársins 2020.

Sagt er frá athugun Landsnets á nýjum tengipunkti í Djúpinu og segir í ársskýrslunni að frá Hvalá að nýjum tengistað yrði lagður jarðstrengur meginhluta leiðarinnar, samhliða gerð vegar yfir Ófeigsheiði. Þess er vænst, segir í ársskýrslunni, „að þessi undirbúningur Landsnets skili sér í kerfisáætlun fyrirtækisins árið 2019 og þá með endanlegu staðarvali tengistaðar.“ Í framhaldinu yrði samningur við Landsnet um tengingu Hvalárvirkjunar við flutningskerfið gerður á árinu 2020.

Skúfnavötn í rammaáætlun og vindorka

Rannsóknum vegna Skúfnavatnavirkjunar var haldið áfram og hafa þær m.a. leitt í ljós að verkefnið er stærra en áætlað var í upphafi, eða 14–15 MW í stað um 9 MW. Mun VesturVerk því skilgreina verkefnið meðal verkefna í fjórða áfanga rammaáætlunar.

Þá var tekið til skoðunar hugsanlegt staðarval til nýtingar vindorku, en nýting vindorku og stýranleiki Hvalárvirkjunar eiga góða samlegð. Áfram verður unnið að því meta hagkvæmni þess að reisa vindorkustöð sem gæti hentað stærð og miðlunargetu Hvalárvirkjunar.

 

DEILA