Heilbrigðisstofnun Vestfjarða fær 60 mkr til tækjakaupa

Heilbrigðisráðherra tilkynnti í morgun um skiptingu á 420 milljóna króna fjárveitingu á fjárlögum 2019 sem merktur er til þess að efla tækjakost heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Til Heilbirgðisstofnunar Vestfjarða renna 60 milljónir króna.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir að þegar sé byrjað að nota peninginn.

„Í fyrsta lagi erum við að kaupa röntgentæki sem kemur í stað þess sem hefur verið bilað á Ísafirði í nokkra mánuði. Þetta nýja tæki er frekar einfaldrar gerðar og er unnið að uppsetningu þess í þessum töluðu orðum. Þetta tæki verður svo flutt til Patreksfjarðar á næstu misserum í stað þess sem þar er, og nýtt fullkomnara tæki keypt fyrir Ísafjörð. Á næstu misserum þarf einnig að endurnýja tölvusneiðmyndatækið á Ísafirði sem komið er mjög til ára sinna. Ekki liggur fyrir hversu langt inn í þessa innkaupaáætlun okkar peningarnir fleyta okkur.

Í öðru lagi erum við með almennan tækjakaupalista sem við vinnum skipulega með. Þar forgangsröðum við því sem þarf að kaupa og höfum þegar lagt drög að fyrstu kaupum með þeim peningum. Sérstaklega lítum við til tækis til mælinga á blóðgösum sem brýnt er að skipta út, auk margvíslegra minni tækja og búnaðar. Listinn er langur, og inniheldur meðal annars bílaflota stofnunarinnar sem er að töluverðu leyti er orðinn óhagkvæmur sökum aldurs.

Í upphafi var þessu fé skipt í tvennt af hálfu fjárveitingarvaldsins, þ.e. myndgreiningartæki annars vegar og almenn tækjakaup hins vegar. Nú hefur því verið steypt í eitt, og við bíðum eftir að sjá hvort það sé eyrnamerkt eða frekari tilmæli fylgi fénu.“

DEILA