Fyrstu íbúðakaup eru 26% á Vestfjörðum

Þjóðskrá hefur birt upplýsingar um hlutfall fyrstu kaupenda íbúða á Vestfjörðum á fyrsta ársfjórðungi 2019. Alls voru gerðir 47 kaupsamningar á þessu tímabili og þar af voru 12 fyrstu kaup. Hlutfallið er hæst á Austurlandi 38% en lægst á Norðurlandi vestra 21%. Á höfuðborgarsvæðinu er það 26%.

Á síðasta ári var hlutfallið 28% á Vestfjörðum.

Taldir eru þinglýstir kaupsamningar og afsöl um íbúðarhúsnæði án undangengins kaupsamnings og eignayfirlýsingar. Ekki eru taldar með eignatilfærslur byggðar á erfðum eða öðru slíku. Heimild til lægri stimpilgjalda vegna fyrstu kaupa hefur verið til staðar frá 1. júlí 2008. Af þessum sökum eru engar þinglýstar upplýsingar um fyrstu kaup fyrir þann tíma. Rannsókn á því hvort um fyrstu kaup var að ræða fór fram við móttöku skjala til þinglýsingar hjá sýslumönnum.

DEILA