Frumvarp um lýðskóla lagt fram á Alþingi

lilja Alferðsdóttir, mennta- og menningarmála-ráðherra.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um lýðskóla á Alþingi í gær. Frumvarpið skapar faglega umgjörð um starfsemi slíkra skóla hér á landi en til þessa hefur ekki verið í gildi löggjöf um hana, segir í fréttatilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Markmið með frumvarpinu er að renna stoðum undir nýjan kost í námi hér á landi sem eykur fjölbreytni þess og mætir áhuga og hæfileikum nemenda sem vilja átta sig betur á möguleikum sínum og stefnu í lífi og starfi. Lýðskólar vinna með lykilhæfni skólastarfs, líkt og kveðið er á um í aðalnámskrá framhaldsskóla, svo sem námshæfni, skapandi hugsun, sjálfbærni og lýðræðisleg vinnubrögð.

Í frumvarpinu er kveðið á um þau skilyrði sem fræðsluaðilar þurfa að uppfylla til að fá viðurkenningu til að starfa undir heitinu lýðskóli. Þar eru meðal annars sett fram skilyrði um óhagnaðardrifin rekstrarform, stjórnskipan lýðskóla, lágmarkstarfstíma og lágmarksfjölda nemenda. Einnig eru ákvæði um forvarnir og réttindi nemenda, aðbúnað og öryggi, hæfni starfsfólks og fyrirkomulag náms. Þá er mælst til þess að nám í lýðskólum nýtist nemendum til frekari verkefna eða til áframhaldandi náms m.a. með aðferðum raunfærnimats, sem er þekkt aðferðafræði á vettvangi framhaldsskóla og framhaldsfræðslu. 

 „Frumvarpið er framfaramál fyrir íslenskt menntakerfi og er ég virkilega ánægð með þær jákvæðu viðtökur sem það hefur fengið í þinginu. Í dag starfa LungA-skólinn og Lýðháskólinn á Flateyri eftir þessari hugmyndafræði og á forsvarsfólk þeirra lof skilið fyrir það góða starf sem þar fer fram,” sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Við undirbúning frumvarpsins var horft til norrænnar löggjafar um lýðskóla og þá sérstaklega starfsemi þeirra í Noregi og Danmörku.

DEILA