Frumvarp lagt fram um um framkvæmdaleyfi vegna Teigsskógar

Haraldur Benediktsson, alþm. fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Lagt var fram í síðustu viku frumvarp til laga um  um framkvæmdaleyfi vegna uppbyggingar á Vestfjarðavegi.  Frunvarpið er stutt og gagnort:

„Vegagerðin hefur leyfi til framkvæmda á leið Þ-H á Vestfjarðavegi (60) milli Bjarkalundar og Skálaness, þrátt fyrir ákvæði skipulagslaga, nr.123/2010. Viðkomandi sveitarfélag skal eftir sem áður hafa eftirlit með framkvæmdunum samkvæmt ákvæðum skipulagslaga.“

Það eru 19 alþingismenn úr 7 þingflokkum sem flytja frumvarpið. Aðeins vantar flutningsmann frá  Flokki fólksins.  Það sem sérstaklega vekur athygli er að 14 þingmenn af þessum 19 eru stjórnarþingmenn. Fyrsti flutningsmaður er Haraldur Benediktsson (D). Alls eru 12 flutningsmenn frá Sjálfstæðisflokki. Tveir eru frá Viðreisn og einn frá Framsóknarflokki, Vinstri grænum, Samfylkingu, Miðflokki og Pírötum. Fjórir af átta þingmönnum kjördæmisins eru meðal flutningsmanna. Tveir þingmanna kjördæmisins eru ráðherrar og ekki er venja að ráðherrar flytji mál sem þingmenn.

Flutningsmennirnir átján eru:

Haraldur Benediktsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Birgir Ármannsson, Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Sigríður Á. Andersen, Vilhjálmur Árnason, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Karl Gauti Hjaltason, Björn Leví Gunnarsson.

  engin vissa um afgreiðslu málsins á stjórnsýslustigi

Í greinargerð með frumvarpinu er minnt á að 20 ár eru liðin síðan Alþingi samþykkti vegaáætlun um uppbyggingu heilsársvegar milli Reykjavíkur og Patreksfjarðar og tveimur árum síðar áttu framkvæmdir að hefjast á vegarkaflanum á milli Bjarkalundar og Flókalundar. Þá segir :

„Þó svo að margt hafi verið gert frá þeim tíma er uppbygging á veginum um Gufudalssveit ekki enn hafin. Breið samstaða er um mikilvægi þess að leggja nýjan veg um Gufudalssveit. Núverandi vegur er kominn til ára sinna og uppfyllir ekki gildandi kröfur um umferðaröryggi. Verulegir almannahagsmunir eru þannig í húfi og því eru frekari tafir óásættanlegar.“

Rakin er gangur málsins  og að sveitarstjórn hafi nýlega samþykkt að breyta aðalskipulagi hreppsins þannig að unnt verði að leggja veginn skv Þ-H leið. Síðan segir:

„Enn hafa orðið tafir á afgreiðslu málsins. Ljóst virðist að engin vissa er enn um endanlega afgreiðslu málsins og að staðfest aðalskipulag verði afgreitt með birtingu í B–deild Stjórnartíðinda en það er forsenda þess að sveitarstjórn geti gefið út framkvæmdaleyfi. Alþingi hefur með samþykkt sinni á samgönguáætlun staðfest vilja sinn til veglagningarinnar og fjármögnun framkvæmdarinnar er tryggð.
Það er óásættanlegt að íbúar á þessu svæði þurfi enn að bíða í flækjustigi stjórnsýslunnar. Hér má engan tíma missa frekar og hefja þarf framkvæmdir sem allra fyrst – engin vegagerð á Íslandi er jafn brýn.“

Óviðunandi töf

Tilgangur frumvarpsins er þannig skýrður í greinargerðinni:

„Óviðunandi töf hefur nú þegar orðið á málinu sem hefur velkst í kerfinu árum saman. Flutningsmenn telja ekki ásættanlegt að íbúar svæðisins þurfi að líða fyrir þær miklu ógöngur sem leyfi til framkvæmda hefur lent í. Það hefur varla verið vilji löggjafans að hægt sé að halda jafnbrýnni samgöngubót í gíslingu flækjustigs stjórnsýslunnar í jafnlangan tíma og raun ber vitni. Flutningsmenn þessa frumvarps telja nauðsynlegt að grípa í taumana til að koma í veg fyrir frekari tafir og flýta því að framkvæmdir geti hafist.
Tilgangur þessa frumvarps er að veita leyfi til framkvæmdarinnar með lögum til að eyða óvissu um það atriði.“

DEILA