Fiskistofa veldur vandræðum

Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda.

Axel Helgason formaður Landssambands smábátaeigenda segir að Fiskistofa valdi grásleppusjómönnum verulegum vandræðum og haft sýnt lítinn vilja til þess að mæta tillögum þeirra til úrbóta á meðferð meðafla í grásleppunet.

Meðafli við grásleppuveiðar er þekkt vandamál og vandasamt að komast hjá því. Nýlegar fréttir af brottkasti smábáta við grásleppuveiðar hafa vakið athygli. Sérstaklega þar sem bæði Landhelgisgæslan og Fiskistofa stigu fram á sjónarsviðið og gagnrýndu brottkast. Axel Helgason segir að vissulega sé brottkast gagnrýnivert og eigi ekki að eiga sér stað. Hins vegar séu í þessu máli vandkvæði sem erfitt hefur verið að eiga við. Bannað hefur verið að veiða skötusel í grásleppunet og í mars fékk Fiskistofa því framgengt að bannið var látið ná til allra botnfisktegunda. Axel segir að sú breyting hefði gert grásleppuveiðar ógerlegar og Landssamband smábátaeigenda beitti sér fyrir breytingum á reglugerðinni um hrognkelsaveiðar á þann veg að bannið var afnumið sem var gert þann 10. apríl. „Nú mega grásleppubátar landa botnfiski sem kemur í grásleppunet enda hafi þeir veiðiheimildir fyrir þeim. Það gerbreytir stöðunni en áður var óheimilt að landa meðaflanum jafnvel þótt báturinn ætti veiðiheimildir.“ Bendir Axel á að erfitt sé að komast hjá brottkasti með slíkar reglur.

Hann segir að vandinn við Fiskistofu hafi verið að engin vilji var til þess að finna ásættanlega lausn á meðferð meðaflans heldur einblíndi stofnunin á að beita refsingum. Gagnrýndi hann einstrengishátt stofnunarinnar og  taldi það ekki farsæla stjórnsýslu.

 

DEILA