Evrópufrumsýning á heimildamynd gegn fiskeldi

Á morgun  verður Evrópufrumsýning á heimildamyndinni Artifishal í Ingólfsskála í Ölfusi og hefst sýningin kl 19.

Í kjölfar frumsýningarinnar fer myndin í sýningu um allan heim, en í henni meðal annars fjallað um hættur sem fylgja laxeldi í opnum sjókvíum, segir í fréttatilkynningu. Málefnið varði Íslendinga beint, enda er hér stundað slíkt eldi og áætlanir uppi um frekari vöxt á þeim iðnaði.

Að kvikmyndinni stendur útivistarvöruframleiðandinn Patagonia, en innkoma vegna sýningarinnar rennur til Verndarsjóðs villtra laxastofna á Íslandi. Patagonia hefur lagst á árar með sjóðnum, og sambærilegum sjóðum í Skotlandi og á Írlandi þar sem safnað er undirskriftum gegn opnu kvíaeldi.

Í fréttatilkynningu frá aðstandendum myndarinnar segir að myndin svipti „hulunni af þeirri dýrkeyptu ranghugmynd að bæta megi fyrir eyðileggingu vistkerfa með hönnuðum tæknilausnum. Rakin eru áhrif klakstöðva og opinna eldisstöðva, iðnaðar sem hamlar viðgangi villtra fiskistofna, mengar ár og eykur vanda sem hann þykist leysa. Í Artifishal er
kafað einnig undir yfirborðið, hvar almennir borgarar reyna að hindra frekari eyðileggingu áa, villtra laxastofna og sjóbirtings.“

Þá segir að myndin Artifishal :

varpar ljósi á þrengingar villtra fiskistofna af völdum klak- og eldisstöðva. Sýndar eru klakstöðvar í Kaliforníu, Washington, Oregon og Idaho í Bandaríkjunum, auk þess sem sýndar eru aðstæður í eldisstöðvum og undirmálslax sem þar er framleiddur í miklu magni. Í neðansjávarupptökum aðgerðasinna í fallegum firði nærri Alta í Noregi má sjá yðileggingu og sjúkdómum af völdum eldis í opnum sjókvíum. „Maðurinn hefur alltaf talið sig æðri náttúrinni og það hefur komið okkur í mikil vandræði. Við þykjumst geta stýrt náttúrunni, en getum það ekki,“ segir Yvon Chouinard, stofnandi Patagoniu. „Ef við metum
villtan lax einhvers þarf strax að grípa til aðgerða. Lífið er fátæklegra án óspilltrar náttúru og þessara merku tegunda. Glötum við öllum villtum tegundum, þá glötum við okkur sjálfum.“

Þá segir í frettatilkynningunni um sjókvíaeldið:

„Risastórar opnar sjókvíar eru farvegur sjúkdóma og mengunar í nærumhverfinu þar sem villtur lax og sjóbirtingur berst fyrir tilveru sinni. Á 40 árum hefur stofn atlantshafslaxins dregist saman úr tíu milljónum í þrjár. Takist ekki að verja heimkynni hans gæti stofninn brátt komist í útrýmingarhættu.“

Pallborðsumræður

Pallborðsumræður verða eftir sýningu myndarinnar. Þeim stýrir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, en í pallborðinu verða Josh Murphy, leikstjóri Artifishal, Friðleifur Guðmundsson, formaður Verndarsjóðs villtra laxa (NASF), Jón Kaldal, talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins (Icelandic Wildlife Fund) og Mikael Frodin, sænskur blaðamaður, stangveiðimaður og rithöfundur, sem látið hefur sig eldismál varða.

DEILA