Bókasafn Bolungavíkur – rætt um breytingar

Bókasafn Bolungavíkur. Mynd: Bolungarvik.is

Bæjarráð Bolungavíkur tók á síðasta fundi sínum umræðu um Bókasafn Bolungavíkur og fól bæjarstjóra að vinna áfram hugmyndur um breytingar á bókasafni Bolungarvíkur og leggja fyrir bæjarráð að nýju.

Bæjarins besta óskaði eftir því við Jón Pál Hreinsson, bæjarstjóra að hann reifaði þær hugmyndir sem verið væri að skoða.

Hann sagði að rætt hefði verið um að skipta upp skólabókasafni og hinum almenna bókasafnsrekstri fyrir almenning. „Ein af þeim hugmyndum sem hafa verið ræddar er að hafa skólabókasafnið áfram í núverandi húsnæði í Grunnskólanum en flytja almenna bókasafnið í eitt af þjónustubilunum að Aðalstræti 21 (EG skrifstofurnar). Þar væri svigrúm til að opna bókasafn með frekari þjónustu eins og t.d. kaffisölu og jafnvel meðlæti.“

„Hugmyndir á bak við slíkar breytingar, ef af verður, eru að færa bókasafnsstarfsemi nær íbúunum, reyna að nýta fjármunina betur til þess að geta lengt opnunartímann og skapa jafnframt umhverfi sem getur dregið að sér fólk til frekari samverustunda í kringum bækur, heitan kaffibolla og jafnvel kleinu.“ sagði Jón Páll.

Benti bæjarstjórinn á að rekstur bókasafna hefði tekið miklum breytingum um allan heim undanfarin ár og vítnaði meðal annars til erindis í  Vísindaporti Háskóla Vestfjarða í vetur þar sem Jóna Símonía fjallaði um breyttan tilgang og hlutverk almenningsbókasafna.

DEILA