Blábankinn á Þingeyri fær Landstólpann 2019

Eva Pandora Baldursdóttir, Arnhildur Lilý Karlsdóttir og Andri Þór Árnason. Mynd: Byggðastofnun.

Á ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn var á Siglufirði fimmtudaginn 11. apríl, var Landstólpinn, samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar, afhentur í níunda sinn. Að þessu sinni hlaut Blábankinn á Þingeyri viðurkenninguna.

Í greinargerð dómnefndar segir:

„Blábankinn er einstaklega hvetjandi nýsköpunar- og samfélagsverkefni þar sem íbúarnir sjálfir höfðu frumkvæði af því að þróa og skipuleggja starfsemina með opinberum aðilum og þjónustuveitendum.

Blábankinn rekur öfluga ímyndarherferð sem leggur áherslu annars vegar á fjölbreytni og gildi mannlífs og náttúru Dýrafjarðar og hins vegar á möguleika og framtíð staðarins. Blábankinn er sameiningartákn og hreyfiafl í samfélaginu. Fjöldi viðburða og funda eru haldnir innan veggja hans í hverjum mánuði en bæði heima- og aðkomufólk nýta sér aðstöðuna sem vinnurými, sköpunarrými, samfélagsmiðstöð og margt fleira. Þegar Blábankinn var stofnaður haustið 2017 voru um 80 störf á Þingeyri, en ekkert þeirra dæmigert skrifstofustarf. Í dag vinna að jafnaði 3 – 6 aðilar hverju sinni innan veggja Blábankans, bæði tímabundið og til frambúðar, í skapandi greinum, stjórnsýslu og frumkvöðlastarfi. Á fyrstu 12 mánuðum starfseminnar dvöldu í Blábankanum 70 skapandi einstaklingar og unni samtals 900 vinnudaga, m.a. gegnum nýsköpunarhraðal og vinnustofur. Þessir einstaklingar taka jafnan virkan þátt í því samfélagi sem fyrir er og hefur Blábankinn því á tiltölulega skömmum tíma og með lítilli fjárfestingu haft töluverð áhrif á atvinnumynstur staðarins.

Íbúar á Þingeyri, stofnendur og starfsfólk Blábankans hafa saman unnið stórvirki og framkvæmt það sem aðrir höfðu ekki hugarflug til. Starf þeirra er öðrum innblástur og hvatning og ómetanleg fyrir samfélagið.“

Landstólpinn er veittur einstaklingi, fyrirtæki eða hóp/verkefni á vegum fyrirtækis eða einstaklinga, fyrir framtak sem vakið hefur jákvæða athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild, eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags. Viðurkenningin er hvatning, hugmynd að baki er að efla skapandi hugsun og bjartsýni.

DEILA