Aðalfundur Landverndar: vill friðlýsa Drangajökulssvæðið

Aðalfundur Landverndar hefst síðar í dag. Fyrir fundinum liggja tillögur að ýmsum ályktunum. Þar er fyrst nefnd tillaga frá stjórn Landverndar um verndum víðerna landsins.

Í þeirri tillögu ber hæst að skorað er  „á umhverfis- og auðlindaráðherra að friðlýsa
Drangajökulsvíðernið og standa óhagganlegan vörð um önnur óbyggð víðerni Íslands;
tryggja þarf að ekki verði gengið á þau víðerni sem eftir eru og stuðla að endurheimt
þeirra sem glatast hafa.“

Í greinargerð með tillögunni segir:

„Að Drangajökulsvíðerninu er nú hart sótt af fyrirtækinu HS Orku, sem er í meirihlutaeigu
erlends stórfyrirtækis. Fyrirhuguð Hvalárvirkjun ásamt línu yfir Ófeigsfjarðarheiði mun
skerða Drangajökulsvíðernið um allt að 40% og ef tvær aðrar fyrirhugaðar virkjanir HS Orku á svæðinu, Skúfnavatnavirkjun og Austurgilsvirkjun, verða að veruleika mun þetta mikla víðerni hafa skroppið saman um 785 km2 (55%) og verður komið niður í aðeins 650 km2.“

Röskun ofannefndra víðerna yrði gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar segir að lokum í greinargerðinni.

Tillagan verður lögð fyrir aðalfundinn síðar í dag til umræðu og afgreiðslu.

Neyðarástand vegna loftslagsbreytinga

Meðal annarra tillagna frá stjórn er áskorun til íslenskra stjórnvalda um  að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsbreytinga. Þá verður að útfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum með tölulegum og tímasettum markmiðum hún verður að ná til allra sviða samfélagsins í takt við alvarleika vandans.

 

DEILA