Þann 15. apríl voru 50 ár liðin frá því að fyrsta stálskipinu, sem smíðað var á Ísafirði, var hleypt af stokkunum í Skipasmíðastöð M.Bernharðssonar á Suðurtanga.
Skipið nefndist Kofri ÍS 41 og var smíðað fyrir útgerðarfélagið Þorgrím hf. í Súðvík.
Marsellíus Bernharðsson vann við skipasmíðar frá árinu 1920, fyrst á annarra vegum, en
sjálfstætt frá árinu 1927. Í nokkur ár vann hann aðallega að viðgerðum skipa, en árið 1936
hóf hann nýsmíði fiskibáta. Fyrsta bátinn afhenti hann árið 1938 og stofnaði um svipað
leyti fyrirtækið M. Bernharðsson skipasmíðastöð hf.
Tréskip 1936 – 1946
Á þessu tímabili smíðaði Marsellíus 19 tréskip af ýmsum stærðum. Stærst þeirra var mb.
Richard, sem mældist 92 tonn.
Fyrsti báturinn, sem Marsellíus smíðaði var afhentur Ingimar Finnbjörnssyni útgerðarmanni í Hnífsdal þann 5. ágúst 1938 og hlaut nafnið Mímir ÍS 30. Hann var 17 brúttólestir og smíðaður úr eik og beyki. Vélin var 50 hestafla June-Munktell.
Tréskip 1953 – 1961
Eftir nokkurra ára hlé hófust skipasmíðar að nýju og á árunum 1954 – 1961 voru afhent 13 tréskip 17 – 82 tonn að stærð.
Stálskip 1967-1977
Smíði fyrsta stálskipsins hófst árið 1967, en því var hleypt af stokkunum 15. apríl 1969. Það var Kofri ÍS 41 eins og fyrr er getið. Á næstu árum voru smíðuð 8 stálfiskiskip. Stærst þeirra var fjölveiðiskipið Heiðrún ÍS 4, 294 tonn að stærð, sem var sjósett 1. júlí árið 1977.
Myndir eru fengnar úr safni Áslaugar Jóhönnu Jensdóttur og birtar með hennar samþykki.