West seafood: Hafrún ÍS 54 seld fyrir 41 milljón króna

Hafrún ÍS 54. Mynd: bátar og búnaður.

West Seafood seldi krókaaflabátinn Hafrúnu ÍS 54 fyrir 41 milljón króna til BG nes ehf á Siglufirði. Kaupverðið er greitt með bátnum Oddur á Nesi ÓF 176 sem metinn er á 10 milljónir króna og 31 milljón króna í peningum sem greiðast eigi síðar en við afsal 5.4. 2019.

Bátnum fylgir búnaður til línuveiða með Mustad beitningavél. Erindi West Seafood til Ísafjarðarbæjar var lagt fram á fundi bæjarráðs á föstudagsmorgun en fundargerð ekki birt fyrr en í morgun. Bæjarráð samþykkti að falla frá forskaupsrétti og verður það lagt fyrir bæjarstjórn til staðfestingar á næsta fundi.

Fiskistofa hefur lokið við útdeilingu á byggðakvóta en ekki fást upplýsingar um það magn sem úthlutað er í hverju byggðarlagi né hvaða bátar fá byggðakvótann. Á föstudaginn fengust þau svör að andmælafresturinn vegna skiptingar milli skipa á Flateyri væri nýliðinn en beðið væri staðfestingar ráðuneytisins á að mál er varða andmælaréttinn séu komin á leiðarenda Fyrr væri ekki hægt að birta  skiptinguna og hefja úthlutun.

Bæjarins besta er kunnugt um að útgerðir á Flateyri hafa fengið bréf um byggðakvótann.

DEILA