Vísindaportið: Sjókonur Íslands fyrr og nú

Gestur í Vísindaporti vikunnar föstudaginn 29.mars er Margaret Willson og mun hún fjalla um þátt íslenskra kvenna í sjómennsku. Á Íslandi tóku konur um aldir stóran þátt í sjósókn. Unnu þær ýmist við hlið karlanna eða einar. Konur voru einnig oft í hlutverki formannsins eða skipstjórans og var þeim hrósað fyrir frammistöðu sína og hæfni. En þessi arfleifð hefur nánast verið þurrkuð út og í dag er ekki algengt að konur starfi á sjó. Hlutur kvenna í fiskveiðum var umtalsverður í landi þar sem jafnrétti kynjanna er með því hæsta sem gerist í heiminum og því er eðlilegt að spyrja hvernig þetta gerðist og hvers vegna?
Margaret Willson er mannfræðingur að mennt og starfaði hún á sínum yngri árum sjálf á sjó. Hún hefur fengist við rannsóknir á sjávarbyggðum og íslenskum sjókonum um þónokkurt skeið. Þar áður fékkst Margaret við rannsóknir á Papua New Guinea og í Brasilíu. Þá hefur hún kennt í ýmsum löndum, fengist við heimildamyndagerð og í 16 ár var hún framkvæmdastjóri alþjóðlegs áhugafélags (NGO). Í dag er hún prófessor við Háskólann í Washington, Bandaríkjunum. Starfar hún þar meðal annars við mannfræðideild og við deildina fyrir Skandinavísk fræði.
Vísindaportið fer fram kl. 12:10-13 í kaffistofu Háskólaseturs og eru allir velkomnir. Erindið verður að þessu sinni á ensku.
DEILA