Vísindaportið í dag: Viltu kynna nýsköpun þína fyrir fáum eða heiminum?

Í Vísindaporti vikunnar föstudaginn 1. mars kl 12 verður hægt að kynna sér þjónustu ráðgjafafyrirtækinsins Evris sem í samstarfi við alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Inspiralia hefur opnað einstök tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir sem vinna að nýsköpun, þróunarstarfi og/eða rannsóknum að sækja alþjóðlega styrki og aðra þjónustu austan hafs og vestan. Gestur okkar er Anna Margrét Guðjónsdóttir frá Evris og er þetta í fyrsta sinn sem hún er með kynningu á Vestfjörðum.
Anna Margrét Guðjónsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Evris, ætlar að kynna nýjar áherslur í evrópskum styrkjum, bandaríska styrki og samninga við opinbera aðila, hvernig Evris getur aðstoðað við að opna nýja markaði o.fl.  Í stuttu máli sagt – ýmislegt sem kemur sér vel fyrir aðila í nýsköpun og þróunarstarfi sem vilja komast með þekkingu sína á alþjóðlega markaði.
Með aðstoð Evris og Inspiralia hafa íslensk fyrirtæki fengið rúmar 11 milljónir evra til vöruþróunar og undirbúnings alþjóðlegrar markaðssetningar.  Eftirtalin fyrirtæki eru meðal þeirra sem hafa fengið evrópska styrki með aðstoð Evris og Inspiralia: Aurora Seafood, Genis, Skaginn3X, Saga Medica,  Mentor, DoHop, EpiEndo, SideKick health, eTactica, Stálsmiðjan-Framtak, Ekkó toghlerar, Erki tónlist, Info Mentor, GeoSilica, Memento, Navis, Fisheries Technology, Þula, Keynatura, Seafood IQ, IceCal, Curio, CRI, Asco Harvester, Naust Marine, Seagem, Platome, Oz, D-Tech, SYNDIS, Mussilla, Valka, Hefring og Svarmi.
Eftir kynningafundinn verður boðið upp á einstaklingsviðtöl og hægt að fara yfir möguleika einstakra fyrirtækja/einstaklinga. Þeir sem hafa áhuga á einstaklingsviðtölum eru beðnir um að láta vita af sér með því að senda póst á annamargret@evris.is
DEILA