Vesturbyggð mótmælir harðlega frystingu Jöfnunarsjóðs

Bæjarstjórn Vesturbyggða ræddi á fundi sínum í fyrradag fyrirhugaða frystingu framlaga ríkisins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Bæjarstjórnin mótmælir þeim harðlega og bendir á að það muni bitna mest á jöfnun á  aðgengi íbúa að lögboðinni þjónustu óháð búsetu. Áformin komi illa við fjölkjarna sveitarfélög eins og Vesturbyggð og

„Þannig verður tekjutap Vesturbyggðar árin 2020 og 2021 samtals 40,9 milljónir króna eða rúmlega 40.000 kr. á hvern íbúa sveitarfélagsins. Tekjutap sveitarfélagsins yrði því verulegt og hefur Vesturbyggð litla möguleika til að mæta þeim tekjusamdrætti nema með skerðingu á þjónustu eða framkvæmdafé.“

Ályktunin í heild:

„Sveitarfélagið Vesturbyggð mótmælir harðlega áformum um frystingu framlaga ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem finna má í forsendum fjármálaáætlunar fjármála- og efnahagsráðherra fyrir árin 2020-2024. Áhrif tillögunnar munu koma mest fram á útgjaldajöfnunarframlögum og framlögum sem ætlað er að jafna aðgengi íbúa að lögboðinni þjónustu óháð búsetu. Forsendur fjármálaáætlunar ganga einnig gegn markmið ríkisstjórnarinnar í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 um jafnan aðgang íbúa að þjónustu. Áhrif tillögunnar munu leggjast mismunandi á einstaka landshluta og einstök sveitarfélög og auka þannig enn frekar á aðstöðumun milli sveitarfélaga í landinu. Sveitarfélög eins og Vesturbyggð sem sinnir dreifbýlu og fámennu svæði og er með marga byggðakjarna verður fyrir miklum neikvæðum áhrifum, nái fjármálaáætlunin fram að ganga, enda reiðir sveitarfélagið sig mjög á framlög Jöfnunarsjóðs til að veita lögbundna þjónustu. Í minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 14. mars 2019 kemur fram að íbúar á Vestfjörðum munu bera hlutfallslega mestu skerðinguna ef tillögur í fjármálaáætlun ná fram að ganga. Fjárframlög Jöfnunarsjóðs til Vestfjarða skerðast þannig hundrað sinnum meira en á höfuðborgarsvæðinu. Þannig verður tekjutap Vesturbyggðar árin 2020 og 2021 samtals 40,9 milljónir króna eða rúmlega 40.000 kr. á hvern íbúa sveitarfélagsins. Tekjutap sveitarfélagsins yrði því verulegt og hefur Vesturbyggð litla möguleika til að mæta þeim tekjusamdrætti nema með skerðingu á þjónustu eða framkvæmdafé. Uppgangur efnahagslífs hefur komið á misjafnan hátt við sveitarfélög samanber skýrslu Byggðastofnunar um Hagvöxt landshluta 2008-2016. Þéttbýlustu sveitarfélögin á þennslusvæðum hafa þá getað nýtt sér hagsveifluna til að efla innviði og þjónustu og þau sveitarfélög ættu því að vera betur í stakk búin en önnur til að mæta samdrætti. Tillaga að frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs mun því auka enn á aðstöðumun fámennra og dreifbýlli sveitarfélaga utan þenslusvæða.

Vesturbyggð skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem felst í ábyrgum rekstri sveitarfélaga eða þátttöku í kostnaði við að þjónusta íbúa landsins. En þær forsendur sem liggja að baki fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 um fyrirhugaða skerðingu er úr takti við sanngjarna úthlutun opinberra fjármuna úr sameiginlegum sjóðum. Það getur varla verið markmið ríkisins að íbúar á Vestfjörðum taki á sig hundrað sinnum meiri skerðingu en aðrir íbúar um leið og sveitarfélög á Vestfjörðum hafa í verulegu mæli ekki notið uppsveiflu hagkerfisins á undanförnum árum.

Sveitarfélagið Vesturbyggð mótmælir því harðlega forsendum fjármálaáætlunar fyrir árin 2020-2024 um skerðingu tekna til Jöfnunarsjóðs og beinir því til fjármála- og efnahagsráðherra að leitað verði annarra og sanngjarnari leiða til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum.“

DEILA