Birt hefur verið skýrsla sveitarstjóra Súðavíkur til sveitarstjórnar um ráðning sveitarstjóra. Er ferlinu lýst í minnisblaðinu og greint frá atriðum sem ekki hafa komið fram áður.
Meðal annars sem fram kemur er að á lokuðum fundi sveitarstjórnar þann 2. mars lagði Samúel Kristjánsson, hrepspnefndarmaður H listans til að sveitarstjórinn Pétur Markan sæti ekki fundinn sem fundarritari. Tillagan var borin upp til atkvæða og fékk hún tvö atkvæði, Samúels og Elsu Borgarsdóttur en var felld með atkvæðum Steins Kjartanssonar, Elínar Gylfadóttur og Karls Guðmundar Kjartanssonar.
Það er einsdæmi að sveitarstjórnarmaður leggi til að vísa sveitarstjóranum af fundi. Engar skýringar er að finna í fundargerðinni á tillögunni. En það er sláandi að það er hreppsnefndarmaður meirihlutans af H lista sem hafði það á stefnuskrá sinni að Pétur Markan yrði áfram sveitarstjóri. Enn athyglisverðara verður málið í því ljósi að Pétur Markan hefur óvænt sagt upp störfum þegar varla er ár liðið af kjörtímabilinu.
Skýrsla sveitarstjóra var lögð fram á síðasta sveitarstjórnarfundi og voru ekki gerðar athugasemdir við hana.
Meirihlutinn fallinn?
Samúel Kristjánsson lagði fram á sama sveitarstjórnarfundi aðra tillögu sem gekk gegn tillögu oddvita sveitarstjórnarinnar, Steins Kjartanssonar, sem jafnframt er oddviti H liðstans og gekk í lið með minnihlutanum, Elsu og Karli Guðmundi og fékk sína tillögu samþykkta og felldi þar með í raun tillögu oddvitans. Steinn Kjartansson boðaði að hann myndi leggja til að faglegri niðurstöðu Hagvangs um ráðningu sveitarstjóra yrði fylgt en Samúel fékk samþykkta leynilega atkvæðagreiðslu þar sem önnur niðurstaða varð.
Erfitt er að lesa annað úr þessum atkvæðagreiðslum annað en að meirihluti sveitarstjórnarinnar í Súðavík sé fallinn og að myndast hafi nýr meirihluti. Þetta er óvenju harkalegur ágreiningur þar sem einn hreppsnefndarmaður meirihlutans vill vísa sveitarstjóranum, sem ráðinn er af meirihlutanum, af fundi og feldi mál sem hans eigin oddviti lagði til.
Allir í sveitarstjórn samþykktu ráðningaferlið og forsendur þess
Fram kemur í minnisblaðinu að allir sveitarstjórnarmenn hafi samþykkt að fá Hagvang til þess að sjá um ráðningarferlið. Auglýsing um starf sveitarstjóra var einnig samþykkt af sveitarstjórninni samhljóða, en þar er settur ramminn um lýsingu á starfinu og þeim hæfnisatriðum sem sveitarstjórnin mun leggja til grundvallar við mat á umsækjendum.
Það var einnig sveitarstjórnin sem samþykkti val á fimm umsækjendum af átján til viðtals. Að loknum viðtölunum sem sveitarstjórn var viðstödd gerði Hagvangur frekara mat á umsækjendum, ræddi við meðmælendur og framkvæmdi persónuleikapróf. Að þessu loknu þann 25. febrúar lá fyrir mat Hagvangs um það að Kristinn H. Gunnarsson væri metin hæfastur umsækjenda þriggja umsækjenda sem eftir stóðu. Bauðst svo hreppsnefndarmönnum að skoða öll gögn og greiningarvinnu Hagvangs í fjóra daga áður en haldinn var fundur í hreppsnefndinni þann 2. mars.
Samkvæmt minnisblaðinu var ætlunin með þeim fundi að ræða ráðningu sveitarstjóra og freista þess að ná samræðu um mögulega niðurstöðu. Ekki virðist hafa orðið af neinum samræðum milli sveitarstjórnamanna og var samþykkt, sem fyrr segir að viðhafa leynilega atkvæðagreiðslu um ráðninguna. Haldinn var fundur 8. mars þar sem atkvæðagreiðslan fór fram og valinn annar umsækjandi en Hagvangur taldi hæfastan.
Engar upplýsingar eru veittar um ástæður þess að þrír hreppsnefndarmenn ákveða að víkja frá þeim forsendum sem þeir höfðu áður samþykkt né er að finna upplýsingar um það hvaða atriði urðu til þess að áliti Hagvangs var ekki fylgt.
Minnisblað sveitarstjóra er að finna hér: http://sudavik.is/stjornsysla/fundargerdir/skra/1002/