Friðfinnur S. Sigurðsson hjá Hópferðamiðstöð Vestfjarðar hefur skrifað bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar bréf og gerir athugasemd við skipulag og akstur skólabifreiðar Grunnskólans á Þingeyri.
Friðfinnur sagði í samtali við Bæjarins besta að hann gerði athugasemd við það að bærinn væri að eiga og reka skólabíl og spurði hvers vegna bærinn ætti þá ekki strætisvagnana sem héldu upp áætlun í sveitarfélaginu. Þeirri þjónustu er sinnt af verktaka. Sagðist hann vilja leggja niður þessi vinnubrögð.
Friðfinnur annaðist skólaaksturinn í Dýrafirði frá 2003 til loka árs 2017 og vildi halda áfram, en bærinn ákvað þá að kaupa skólabíl hefur séð um aksturinn síðan.
Í minnisblaði bæjarstjóra til bæjarráðs segir að hann sjái ekki betur en „að það hafi verið unnið fullkomlega eðlilega og með góðum stuðningi frá lögfræðingum Sambands íslenskra
sveitarfélaga. Sveitarfélagið hefur rekstrarleyfi á bílinn, hann er skráður eins og lög og reglur gera ráð fyrir og sá bílstjóri sem vísað er til í bréfinu hefur þau réttindi sem krafa er gerð um til skólabílstjóra“.
Virðist því bæjarstjóri einkum líta til þess hvort ökumaður skólabifreiðarinnar hafi tilskilin réttindi en víkur ekki í minnisblaði sínu að því umkvörtunarefni að bærinn hafi tekið til sín reksturinn.
Bæjarráð fól bæjarstjóra að svara bréfritara, en ekki kemur fram í bókun bæjarráðs hvert innihald svarsins ætti að vera.