Misréttið komið að þolmörkum

Drífa Snædal, forseti ASÍ.

föstudagspistill:

Í upphafi vikunnar var ég fulltrúi Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC) á samráðsvettvangi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington. Þar hafði hreyfingin möguleika á að ræða milliliðalaust við þá sem stýra þessum stofnunum. Áherslan í þeim samtölum, af okkar hálfu, var á gæði starfa, jöfnuð og jafnrétti og sáttmála um félagslega vernd. Svo virðist sem þessar alþjóðastofnanir séu að gera sér grein fyrir að jöfnuður sé lykilatriði í að koma á og viðhalda friði, hvort sem er innan ríkja eða á milli þeirra. Þá þarf að vinda ofan af þeirri stefnu að fjölgun starfa sé nauðsyn í sjálfu sér án þess að vinnuvernd, félagslegt réttlæti og sæmileg laun séu einnig í pakkanum.

Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er svo farinn að leggja til hátekjuskatt til að auka jöfnuð og jafnvel sameiginlegan fjármagnsflutningaskatt til að stemma stigu við skattaundanskotum hljóta stjórnvöld um allan heim að hlusta enda hefur sjóðurinn hingað til ekki verið þekktur fyrir að vilja skattleggja þá auðugu sérstaklega. Þessi stefnubreyting er til marks um að flestir gera sér nú grein fyrir að misrétti í heiminum er komið að þolmörkum. Það er bókstaflega lífsnauðsynlegt fyrir lýðræði og frið í heiminum að vinda ofan af misréttinu. Það mun svo koma í ljós hvort áherslur verkalýðshreyfingarinnar skili sér í stefnu og aðgerðum Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Af innlendum vettvangi er það að frétta að aðildarfélög ASÍ hamast við að ná samningum við Samtök atvinnulífsins og samtal við stjórnvöld er enn í gangi. Ljóst er þó að ef ekki á að koma til harðra átaka er naumur tími til stefnu enda hefjast aðgerðir á ný í næstu viku.

Í dag kom út svört skýrsla um Ísland frá sérfræðingahópi Evrópuráðsins um mansalsmál. Það kom ekki á óvart að skýrslan væri svört og tillögurnar eru allar í samræmi við þær tillögur sem helstu sérfræðingar í málaflokknum hafa barist fyrir síðustu ár. Nýs dómsmálaráherra bíða þau brýnu verkefni að koma á samræmingarteymi, gera aðgerðaráætlun, breyta lögum er varða mansal, auka yfirsýn og fræðslu um málaflokkinn. Það þarf að lyfta grettistaki í þessum málum, ekki síðar en í gær.

Til að enda á jákvæðum nótum þá má öðlast trú á bjarta framtíð með því að gera sér ferð í Laugardalshöllina í dag og á morgun en þar fer fram Íslandsmót iðn- og verkgreina þar sem keppt er í fjölmörgum greinum af metnaði og fagmennsku.

Góða helgi,

Drífa Snædal

forseti ASÍ

DEILA