Hvalárvirkjun: undirbúningsframkvæmdir í sumar

Hreppsnefnd Árneshrepps hefur samþykkt öðru sinni breytingar á deiliskipulagi til þess að gera kleift að framkvæmda nauðsynlegar rannsóknir vegna virkjunaráformanna.

Forsvarsmenn Vesturverks ehf segja að verði engar frekari tafir verða í ferlinu, og framkvæmdaleyfi verði gefið út í framhaldi af auglýsingu í Stjórnartíðindum, ættu undirbúningsframkvæmdir að geta hafist í sumar.

Breytingarnar á deiliskipulaginu nú felast einkum í afmörkun tímabundinnar lóðar og byggingarreits fyrir starfsmannabúðir og vinnusvæði, afmörkun og umfangu efnistökusvæða ásamt vegum innan svæðisins og tengingu við þjóðveginn í Ófeigsfirði. Veglagning áleiðis upp á Ófeigsfjarðarheiði er nauðsynleg svo hægt sé að taka kjarnasýni úr jarðlögum til rannsókna og huga að frekari undirbúningi jarðgangagerðar vegna virkjunarinnar.

Unnið að seinni hluta breytinga

Samhliða þessum breytingum á deiliskipulagi er unnið að gerð seinni hluta tillagna um breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi Árneshrepps. Þar er um að ræða frekari veglagningar og staðsetningu stíflna og annarra virkjunarmannvirkja ásamt legu háspennulína og jarðstrengja. Stefnt er að því að þær tillögur fari í kynningu með vorinu.

Í seinni hluta skipulagstillagnanna er gert ráð fyrir nýjum vegi af Eyrarhálsi áleiðis niður í Ingólfsfjörð ásamt nýjum vegi frá Húsa að Hvalá. Breyting er gerð á legu háspennulínu/jarðstrengs frá því sem er á gildandi aðalskipulagi og áætlað að hann liggi yfir Ófeigsfjarðarheiði áleiðis yfir í Ísafjarðardjúp. Í deiliskipulagstillögunum er auk þessa gerð nánari grein fyrir staðsetningu stíflna og annarra mannvirkja tengdum Hvalárvirkjun.

DEILA