Frumvarp til þess að friða landselinn

Línurit um landselsstofninn.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um lax- og silungsveiði þar sem bætt er inn heimild til ráðherrans að  setja reglugerð um selveiðar, m.a. um skráningu selveiða og að banna eða takmarka selveiðar á íslensku forráðasvæði ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar.

Tilefni þessa frumvarps er að í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem kynnt var á fundi í
atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu 13. júní 2017 kemur fram m.a. að stofn landsels nú sé í sögulegu lágmarki. Fækkað hefur um 77% í stofninum síðan fyrsta stofnmatið fór fram 1980 og samkvæmt talningu sumarið 2016 hafði stofninn minnkað um tugi prósenta (þriðjung) frá 2011.

Frumvarpið hefur áhrif á bændur, veiðiréttareigendur og aðra sem hafa stundað selveiðar.
Megintilgangur þess er að vernda selastofna hér á landi gegn ofveiði.

Hafrannsóknastofnun sinnir selarannsóknum og vöktun á ástandi útsels- og landselsstofns
hér við land. Vöktunin felst m.a. í reglubundnum talningum, nú annað hvert ár, og eru talningarnar helstu forsendur ráðgjafar sem stofnunin veitir.

Ástæða fækkunar selstofnanna liggur ekki ljós fyrir en sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar telja að beinar veiðar og hjáveiðar við fiskveiðar hafi haft veruleg áhrif til fækkunar.
Aðrir þættir sem þörf er á að rannsaka nánar eru áhrif hlýnunar sjávar, breytingar í fæðuvali, mengun o.fl.

Í greinargerð með frumvarpinu segir ljóst að ef banna eða takmarka eigi veiðar á sel hér á landi verði að vera skýr lagaheimild til þess sem ekki er til staðar í gildandi lögum og eða reglum. Einnig verður bannið  að vera byggt á vísindalegum grunni og vel rökstutt.

 

DEILA