Fundur Verndarsjóðs villtra laxastofna, NASF á Sólon í Reykjavík í gærkvöldi var vel sóttur auk þess sem fundinum var streymt og sagði fundarstjóri að fjölmargir hefðu fylgst með því sem fram fór.
Það voru þeir Ólafur I. Sigurgeirsson, lektor við Hólaskóla, og Jóhannes Sturlaugsson líffræðingur sem ræddu laxeldi og voru þeir á öndverðum meiði um sjókvíaeldið sem eru í örum vexti.
Fram kom hjá báðum að helstu ógnir sem fylgdu laxeldinu væri erfðablöndun og laxalús. Að auki nefndi Ólafur úrgang og sjúkdóma.
Fram kom í máli Ólafs að hann telur erfðablöndun ekki vera villta laxinum hættulega þótt vissulega slyppi eldislax og leitaði upp í ár. Væri það vegna þess að eldislaxinn væri vanhæfari en villtur lax til þess að komast af í náttúrunni og hæfni hans minnkaði með fleiri kynslóðum eldislaxa. Náttúruvalið sæi svo um skola burt á nokkrum kynslóðum laxa þeim erfðafræðilegum áhrifum sem kynnu að verða á villta laxinu. Nefndi Ólafur til ýmsar rannsóknir máli sínu til stuðnings og fór vandlega yfir stöðu norsku laxastofnana.
Ólafur Sigurgeirsson sagði að laxeldi væri góð aðferð til þess að búa til matvöru.
Jóhannes Sturlaugsson, sem hefur m.a. rannsakað smáa stofna í Arnarfirði lagði áherslu á að varðveita bæri villta laxastofna og taldi að sjókvíaeldi fylgdi óásættanleg fórn lífríkisins. Vildi hann breyt áhættumat Hafrannsóknarstofnunar þannig að það næði til allra áa á landinu þar sem lax væri að finna eða um 100 áa í stað um 50 sem nú er miðað við. Sagði Jóhannes í eridni sínu að laxeldi mætti ekki spilla grunnþáttum í náttúrunni.
Að framsöguerindum lokum voru fyrirspurnir bornar fram og stuttar umræður urðu.