Fiskeldisfrv: valdið til Hafró

Hafrannsóknarstofnun er fært nánast allt vald í hendur til að ráða því hvernig áhættumat erfðablöndunar verður ákvarðað. Verður stofnunin bæði með stöðu vísindastofnunar og ákvörðunaraðila eða stjórnvalds samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar um fiskeldi sem lagt var fram á Alþingi í gær.

Það er einkum í 7. grein frumvarpsins sem þessi ákvæði er að finna og eru þau að nokkru leyti breytt frá því sem kynnt var í samráðsgáttinni og gengur breytingin í þá átt að færa Hafrannsóknarstofnun meira vald en þá var gert ráð fyrir.

Samkvæmt frumvarpinu gerir Hafrannsóknarstofnun tillögu til ráðherra um það magn af frjóum eldislaxi sem má ala  í sjó hverju sinni á tilteknu hafsvæði á grundvelli áhættumats erfðablöndunar. Tillagan er bindandi fyrir ráðherra. Það þýðir að ráðherrann má ekki breyta tillögunni. Að því leyti gengur þessi tilögum lengra en er þegar ráðherra ákveður árlega það magn sem veiða má úr sjó af nytjastofnum. Ráðherra getur þá vikið frá aflatillögu stofnunarinnar en varðandi fiskeldið verður ráðherranum það óheimlt.

Þessi tilhögun er svo skýrt í athugasemdum sem fylgja með frumvarpinu og eru efni þess til skýringar að ef ráðherran breytti frá tillgöu Hafrannsóknarstofnunar yrði hún talin ógildanleg:

„Athuga má í þessu sambandi að þegar umsögn er bindandi fyrir æðra stjórnvald, eins og gert er ráð fyrir hér, þá eru hendur hins æðra stjórnvalds bundnar. Ef ráðherra mundi þannig gera breytingar á tillögu Hafrannsóknastofnunar við staðfestingu hennar yrði sú stjórnarathöfn talin haldin verulegum annmarka sem almennt mundi leiða til þess að ákvörðunin yrði talin ógildanleg (sjá: Andersen, P.: Dansk forvaltningsret,bls. 346). Á hinn bóginn mundi ráðherra vera heimilt, í krafti yfirstjórnarheimilda stjórnsýsluréttarins, að krefjast nánari skýringa teldi hann ástæðu til þess.“

Breytir eldri rekstrarleyfum

Skylt verður að breyta rekstrarleyfum sem þegar hafa verið gefin út til samræmis við nýtt áhættumat Hafrannsóknarstofnunar. Það þýðir að ef Hafrannsóknarstofnun minnkar það magn sem stofnunin telur að megi ala á tilteknu svæði (t.d. Arnarfjörður) þá verða fyrirtækin að draga úr framleiðslu sinni. Fyrir rekstraraðilana verður þetta fyrirkomulag þannig að lítið öryggi verður til framtíðar um starfsemi þess.

Samráðsnefnd má ekki gera tillögu

Áður en Hafrannsóknarstofnun gerir sína tillögu til ráðherra fer tillagan til ráðgefandi samráðsnefndar. Sú nefnd má aðeins gefa álit sitt á tillögunni en getur ekki gert breytingartillögu. Það verður svo alfarið á valdi Hafrannsóknarstofnunar hvort tekið verður tilllit til álitsins og ef svo verður þá að hve miklu leyti.

-k

DEILA