Það er að skýrast myndin sem sýnir tjónið af framgöngu Hafrannsóknarstofnunar gegn uppbyggingu sjókvíaeldis við landið. Nýjustu gögn sýna að það verði um 50 milljarðar króna árlega takist ekki að sannfæra stjórnvöld um að styðjast við vísindi frekar en ýtrustu öfgar.
Vestfirðingum er í fersku minni að Hafrannsóknarstofnun stöðvaði laxeldi í Ísafjarðardjúpi þegar uppbyggingin var að hefjast og hægði á framþróuninni á sunnanverðum Vestfjörðum.
Nú er verið að reka smiðshöggið á þá ætlun að kæfa í fæðingu atvinnuuppbyggingu sem mun færa þjóðinni meiri verðmæti til betri lífskjara á næstu áratugum en mögulegt er að sækja í aðrar atvinnugreinar. Það yrði mikil ógæfa ef svo illa færi.
Fiskirækt er framtiðin
Laxeldið er þekkt atvinnugrein erlendis. Markaðurinn fyrir eldislaxinn er mjög sterkur, verðin há og eftirspurn mikil og vaxandi. Matvælaþörf heimsins vex stórum skrefum með stöðugri mannfjölgun og almennt batnandi efnahagur víðast hvar í heiminum veldur verðhækkun. Vaxandi framleiðsla matvöru í fiski er borin upp af fiskirækt og svo er komið að hún er orðin meiri en veiðar á villtum fiski. Framundan er að allur vöxtur í fiskneyslu verður að koma frá ræktuninni þar sem veiðar á villtum fiski standa í stað og svo virðist að villtir fiskistofnar séu fullnýttir.
Atlantshafslaxinn hefur reynst vel, sérstaklega norski laxinn, til ræktunar. Matvaran er heilnæm, vistvæn og kolefnissporið er sérstaklega lágt. Fiskeldið er arðbært og framtíðarhorfum eru góðar.
Fimmtíu milljarðar króna
Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og alþingismaður Vestfirðinga, Einar K. Guðfinnsson, dró fram efnahagslegu þýðinguna fyrir landsmenn í erindi sem hann flutti á ráðstefnunni Strandbúnaður 2019. Einar starfar nú sem formaður samtaka fiskeldisstöðva.
Bar hann þar saman ávinning þjóðarbúsins af framleiðslu samkvæmt annars vegar burðarþolsmati og hins vegar samkvæmt svokölluðu áhættumati Hafrannsóknarstofnunar. Burðarþolsmatið leiðir í ljós að hægt er að rækta 122 þúsund tonn af laxi á þeim svæðum sem hafa verið metin. Mat er ekki komið á sum af leyfilegum svæðunum , til dæmis hafa Jökulfirðir ekki verið burðarþolsmetnir.
Hafa verður í huga að stærstur hluti strandlengjunnar er lokaður fyrir laxeldi vegna nálægðar við laxveiðiár. Það er aðeins á Vestfjörðum, í Eyjafirði og hluta Austurlands sem heimilt er að stunda laxeldi í sjó. Burðarþolið væri örugglega miklu meira en 122 þúsund tonn ef ekki væri beitt þessum takmörkunum.
Hafrannsóknarstofnun hefur tekist með áhættumatinu sínu að koma í veg fyrir 61 þúsund tonna framleiðslu, en það er um helmingur þess sem burðarþolið leyfir. Þar af eru 30.000 tonn í Ísafjarðardjúpi.
Fram kemur í erindi Einars K. að útflutningsverðmæti 60 þúsund tonnanna sem áhættumatið samþykkir er um 48 milljarðar króna. Sé hins vegar miðað við burðarþolsmatið er útflutningsverðmætið talið verða 98 milljarðar króna. Þarna munar 50 milljörðum króna. Þetta samsvarar 2/3 af öllum útflutningstekjum af þorskveiðum. Verðið á kílói af slægðum laxi en 809 kr í þessum tölum. Það sér hver maður að þetta verð er langum hærra en fæst fyrir annan fisk. Laxeldið er óvenjulega arðbær atvinnurekstur, ekki bara hér á landi heldur annars staðar. Þannig er gífurlegur hagnaður af laxeldinu í Noregi þar sem eru framleidd 1,2 milljónir tonna af laxi á hverju ári. Það er um hundrað sinnum meira en á Íslandi.
Það er engum blöðum um það að fletta að efnahagslegur ávinningur af laxeldinu er gríðarlegur fyrir þjóðabúið. Sá arður myndi standa undir verulega bættum lífskjörum um langa framtíð.
Aðrar fimmtíu milljarðar króna
Það sem ekki kom fram í erindi Einars K. Guðfinnssonar er að hæglega er hægt að auka burðarþolsmatið úr 122 þúsund tonnum um a.m.k. önnur 60 þúsund tonn. Líklega næst sú aukning á þeim svæðum sem hafa ekki verið metin ennþá innan Vestfjarða og með Eyjafirði. Það þýðir aðrar fimmtíu milljarðar króna. Áfram yrði stærstur hluti strandlengjunnar lokaður fyrir laxeldinu. Það er svo önnur spurning hvað hugsanlega væri hægt að framleiða mikið ef verndarsvæðið fyrir laxveiðiárnar yrði minnkað og að sama skapi stækkað svæðið þar sem leyfilegt væri að stunda sjókvíaeldi.
Fórna fimmtíu milljörðum tvisvar – fyrir ekkert
Öll þessa öfgakennda barátta gegn laxeldinu í sjó er háð til þess að vernda lax- og stangveiðina. Tekjur af þeirri atvinnugrein eru metnar upp á 4,9 milljarða króna. Því er haldið fram að laxeldið muni ganga frá villtum laxastofnum. Vísindaleg rök því til stuðnings liggja ekki á lausu. Áhættan af skaðlegri blöndun stofna er lítil og unnt að minnka hana verulega. Tekjur af stangveiðinni munu ekki minnka né sú atvinnugrein skaðast.
Spurningin er hvers vegna ætti að fórna meira en 100 milljörðum króna í árlegar útflutningstekjur til þess að vernda 4,9 milljarða króna, sem munu hvort sem er verða áfram?
Hvaða stjórnmálaflokkur ætlar að boða þá stefnu að fórna 100 milljörðum króna á hverju ári og fá ekkert í staðinn?
Kristinn H. Gunnarsson