Efnahagsleg þýðing fiskeldis í sjó er gríðarleg

Á ráðstefnunni Strandbúnaður 2019 flutti Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva erindi um efnahagslega þýðingu laxeldisins í sjó á Íslandi.

Erindið var flutt á ensku og eru því glærurnar sem hann sýndi með erindinu á ensku.

Einar dró fram útflutningsverðmæti af laxeldinu að gefnum forsendum um verð pr kg sem reiknað var yfir í óslægðan fisk.

Í fyrsta lagi er útflutningsverðmætið reiknað miðað við  útgefin leyfi til framleiðslu. Það er fyrir 42 þúsund tonna framleiðslu. Útflutninsgverðmætið af því er áætlað vera 34 milljarðar króna.  Sú fjárhæð samsvarar samanlögðum útflutninsgtekjum af loðnu og makrílveiðum á síðasta ári. Fjölmiðlar hafa síðustu daga flutt margar fréttir af áfallinu fyrir þjóðarbúið vegna loðnubrests þetta árið. Það eru háar fjárhæðir sem tapast. Á sama hátt má gera sér vel í hugarlund þann búhnykk sem fylgir þessari framleiðslu í laxeldinu.

þess má geta að í síðustu viku voru gefin út ný leyfi til laxeldis á Austfjörðum fyrir um 9.000 tonn sem ekki náðist að reikna inn í þessar tölur.

Í öðru lagi reiknað Einar K. Guðfinnsson út útflutninsgverðmætið að laxeldinu að því marki sem núverandi áhættumat Hafrannsóknarstofnunar leyfir. Er það um 60 þúsund tonn og myndi gefa um 48 milljarða króna í útflutningsverðmæti.

Það er svipuð fjárhæð og nemur útflutningstekjum af öllum uppsjávarfiskveiðum ársins 2018.

Í þriðja lagi var reiknað miðað við burðarþolsmartið sem þegar liggur fyrir á þeim svæðum landsins sem laxeldið er heimilt.  Það er um 122 þúsund tonna framleiðsla af laxi og útflutninsgtekjur af því yrðu um 98 milljarðar króna.

Sú fjárhæð jafngildir öllum tekjum af útflutningi á þorskafurðum síðasta árs. „Það getur hver maður séð hversu mikil innspýting það yrði í íslenskt efnahagslíf ef tekjur af þorskveiðum myndu tvöfaldast“ sagði Einar K. Guðfinnsson í samtali við Bæjarins besta.“ Efnahagsleg þýðing sjókvíaeldisins er gríðarleg ef við nýtum okkar möguleika.“

DEILA