Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs var einn þeirra sem voru í panel á ráðstefnu Sjávarútvegsráðuneytisins fyrir skömmu um áhættumat af erfðablöndun villts og eldislax í sjó sem Hafrannsóknarstofnun hefur unnið að og til stendur með lagafrumvarpi að lögfesta.
Af því tilefni var Daníel inntur eftir afstöðu sinni til áhættumatsins.
Daníel segir að gagnrýni hans á áhættumatið sé margþætt.
„Í fyrsta lagi er ég ekki sannfærður um að þetta sé rétt nálgun. Þ.e. að áhættumatið fái svona mikinn sess í umræðunni og við leyfisútgáfu. Ég held að miklu frekar en að vera að gefa út áhættumat eigi menn að setja sér markmið. Markmiðið á að vera alveg skýrt þ.e. að það sé áhugavert fyrir íslenska þjóð að byggja upp fiskeldi og að við ætlum að gera það á sama tíma og við tryggjum verndun og viðgang íslenska laxastofnsins. Það tel ég að vel sé hægt.
breytilegt mörk
Ég tel einnig að mörkin varðandi erfðablöndun eigi að vera mismunandi eftir hvar maður er á landinu. Þ.e. að ekki eigi að gera sömu kröfur þar sem að eldið hefur verið leyft þ.e. á Vestfjörðum og Austfjörðum og að nær eldi eigum við að taka meiri áhættu en fjær því. Við eigum líka að vera óhrædd við að gera mjög miklar kröfur í og við bestu laxveiðiár landsins.
fullnýta burðarþol Ísafjarðardjúps
Þegar að við erum búin að setja þessi markmið, þ.e. að við ætlum að tryggja viðgang íslenska laxastofna eigum við að setja okkur stefnu í eldismálum. Þ.e. hvernig ætlum við að auka framleiðslu og til hvaða aðgerða ætlum við að grípa svo að nýta megi burðarþol þeirra fjarða og flóa þar sem að eldi er leyft. Hvaða áherslur ætlum við að setja varðandi framleiðslu og hvernig ætlum við að tryggja að sem mest af störfum, umsvifum og arði í eldinu verði eftir á svæðum þar sem að eldið fer fram og á Íslandi. Hvernig getum við orðið framúrskarandi fiskeldisþjóð. Ég tel að sé málið nálgast á þennan hátt sé hægt að setja tímasetta áætlun um hvernig við getum á næstu 10-15 árum fullnýtt burðarþol Ísafjarðardjúps til laxeldis.
viðbragðsáætlanir
Þegar að reynsla kemur á eldið og með vöktun þurfa svo að vera til viðbragðsáætlanir, líkt og í Noregi þar sem skilgreint er hvernig brugðist er við þegar fiskur gengur upp í ár eða lúsar eða annarra áhrifa verður vart. Sett verði upp s.k. umferðarljós þar sem að rautt þýðir stöðvun útgáfu leyfa, gult krefst viðbragða o.s.frv.
Í þessu felst grundvallarmunur að mínu mati. Þ.e. hvort við séum að leita leiða til að nýta burðarþolið eða hvort að við séum bara að horfa til spálíkans sem að horfir á það eitt að meta líkur á erfðablöndun. Við munum ekki fá þekkingu og reynslu af eldi nema með því að stunda eldi.
Hafró ræður öllu
Þegar kemur áhættumatinu sjálfu þá er alveg ljóst að með lögfestingu þess og jafnvel bara við þá staðreynd að það liggur nú fyrir að þá hefur Hafrannsóknarstofnun Íslands öll spil á hendi varðandi framtíð eldis í Ísafjarðardjúpi. Allar stofnanir sem gefa út leyfi munu horfa til áhættumatsins þar sem að það er „umsögn“ Hafró. Ég tel að engin stofnun muni horfa fram hjá því við mat á útgáfu leyfa. Þess vegna verður Hafró að vinna faglegar og opna sig meira og vinna með okkur og greininni að tillögum og lausnum. Það gengur ekki að þeir neiti að setja upp sviðsmyndir og horfa á mótvægisaðgerðir.
aðeins tvær ár
Einnig er vert að hafa í huga að sé niðurstaða áhættumatsins rétt þá er það þannig að einungis Laugardals- og Langadalsá í Ísafjarðardjúpi eru taldar vera í hættu vegna laxeldis. Áhrif laxeldis á allar aðrar laxveiðiár landsins eru talin innan marka. Viðfangsefnið er því mjög afmarkað við þessar tvær ár sem einfaldar verkefnið. Einnig hlýtur það að vera þannig að við séum tilbúin til að taka aðeins meiri áhættu við þessar tvær ár ef það er raunin að allar aðrar séu taldar vera í lagi.
11 fiskar skipta sköpum
Það er líka vert að hafa í huga að þegar eldið verður komið á fullt í Ísafjarðardjúpi verða um 6 milljónir fiska í kvíum þar þegar mest lætur. Hafró metur það þá þannig að það verði í lagi að um 25 fiskar gangi árlega upp í hvora á án þess að erfðablöndun fari yfir mörkin. Þeir telja hinsvegar samkvæmt áhættumatinu að það muni að meðaltali ganga um 36 fiskar ganga upp í hvora á til hrygningar. Það gefur því augaleið að þetta er mjög lítið hlutfall af öllum 6 milljón fiskunum sem þeir telja að muni sleppa upp í árnar til hrygingnar. M.v. þá óvissu sem er í þessu öll þá verður það að teljast ólíklegt að áhættumatið sé svo nákvæmt að það geti metið afdrif 6.000.000 fiska með nákvæmni upp á 11 fiska. Það segir okkur líka að mótvægisaðgerðir þurfa þá bara að geta komið í veg fyrir að 11 fiskar nái að hryggja í ánum árlega.
vantar mótvægisaðgerðir
Áhættumatið eins og það liggur fyrir núna tekur ekki tillit til neinna mótvægisaðgerða og þess vegna höfum við gagnrýnt það svo harkalega að Hafró neiti að horfa til þeirra og endurmeta áhættuna af erfðablöndun að teknu tilliti til þeirra mótvægisaðgerða sem að eldisfyrirtækin eru tilbúin í. Það vekur óneitanlega upp þær spurningar hvort að ástæðan sé sú að Hafró viti eins og margan grunar að það muni opna djúpið að tekið verði tillit til mótvægisaðgerða við endurmat á áhættumatinu. Það er því óskiljanlegt í mínum huga að þeir fái að komast upp með það að stoppa þessa gríðarlegu uppbyggingu á þeim forsendum. Nú þegar hefur vestfirsku samfélagi (og landinu öllu) verið valdið milljarða tjóni af þeim orsökum.“