Bæjarstjórn Ísafjarðaebæjar: þungar áhyggjur

Frá fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í nóvember 2018. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti með 9 samhljóða atkvæðum ályktun á fundi sínum á fimmtudaginn í síðustu viku þar sem lýst er þungum áhyggjum vegna ´forma um skerðingu á framlögum ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Mótmælir hún þeim svo harðlega og krefst þess að leitað verði annarra leiða til þess að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum.

Ályktunin í heild:

„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna hugmynda fjármálaráðuneytisins um niðurskurð á framlögum í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Áhrifin munu koma mest fram á útgjaldajöfnunarframlögum, framlögum sem er ætlað að jafna aðgengi íbúa að lögboðinni þjónustu óháð búsetu. Áhrifin munu síðan leggjast mjög mismunandi á landshluta og einstaka sveitarfélög sem varla getur talist sanngjarnt. Fram kemur í greiningu í minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 14. mars sl., að íbúar á Vestfjörðum munu bera hlutfallslega mestu skerðinguna. Þannig skerðast fjárframlög Jöfnunarsjóðs hundrað sinnum meira á Vestfjörðum en á höfuðborgarsvæðinu.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar mótmælir harðlega þessum hugmyndum um skerðingu tekna til Jöfnunarsjóðs og krefst þess að leitað verði annarra leiða til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Óásættanlegt er að fáein og afmörkuð sveitarfélög eða landssvæði taki á sig langstærstan hluta af umræddum niðurskurði.
Sveitarfélög á Vestfjörðum skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem felst í ábyrgum rekstri sveitarfélaga eða þátttöku í kostnaði við að þjónusta íbúa þessa lands. Ef ríkisvaldið hefur raunverulega áhyggjur af horfum í efnahagsmálum þá er lausnin bæði einföld og fyrirsjáanleg. Á Vestfjörðum og Austfjörðum hefur verið unnið að atvinnuuppbyggingu sem er fyllilega tilbúin til að fylla í gatið sem hugsanleg niðursveifla í íslensku efnahagslífi mun skilja eftir sig. Atvinnuuppbygging sem mun í fyllingu tímans taka fram úr íslenskum sjávarútvegi að stærð og umfangi auk þess að vera fjármögnuð án aðkomu ríkisins á nokkurn hátt. Ef Ísland vill fá meira frá Vestfjörðum, þá stendur aukið fiskeldi til boða.“

DEILA