Atvinnuvegaráðherra: Vatnsafl og jarðvarmi eru ekki þjóðareign

Á ársfundi Landsvirkjunar 28. febrúar sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra  að vatnsafl og jarðvarmi væru ekki þjóðareign líkt og fiskurinn í sjónum.

Í ræðunni vék Þórdís að auðlindum og lét þá þessi orð falla af því tilefni að orkuauðlindinni hefði verið líkt við fiskistofnana í umræðunni um þriðja orkupakkann  og hún bætti ennfremur við:

Vatnsafl og jarðvarmi tilheyra eignarhaldi á landi, rétt eins og laxveiðiréttindi tilheyra jörðum. Ef Jón og Gunna eiga landið þá eiga Jón og Gunna viðkomandi orkuauðlind sem er á því landi, eða undir því. Ef ríkið á landið þá á ríkið viðkomandi orkuauðlind. Ef sveitarfélag á landið þá á sveitarfélagið viðkomandi orkuauðlind. Og hér má síðan minna á að samkvæmt lögum er ríki og sveitarfélögum óheimilt að framselja, beint eða óbeint, með varanlegum hætti rétt til umráða og hagnýtingar á virkjanlegum orkuauðlindum sínum.“

 

Af þessum orðum ráðherrans má draga þá ályktun að það séu landeigendur sem ráði mestu um það hvort vatnsafl verði virkjað á sinni jörð að uppfylltum almennum skilyrðum í lögum, svo sem lögum um umhverfismat og skipulagsmál.  Áform um Hvalárvirkjun þurfa því ekki sérstakt samþykki annarra, svo sem ríkisins, umhverfissamtaka eða annarra landeigenda.

 

 

DEILA