100 manns á námskeiði um Alzheimer

Hjúkrunarheimilið Eyri Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fulltrúar Alzheimersamtakanna voru á Ísafirði að veita fræðslu um heilabilun og flest sem henni tengist. Mánudaginn 18. mars var námskeiðið Hvað er HEILA málið? Grunnnámskeið um heilabilunhaldið haldið í sal Eyri hjúkrunarheimilis. Námskeiðið var fyrir starfsfólk hjúkrunarheimilanna Eyrar á Ísafirði, Bergs í Bolungarvík og Tjarnar á Þingeyri.

 

Hildur Elísabet Pétursdóttir hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Eyri og Bergi hafði frumkvæði að því að halda námskeiðið. Starfsfólki á bráða- og stoðdeildum HVest stóð einnig til boða að sækja námskeiðið sem og starfsfólki dagdvalarinnar Hlífar og starfsfólki félagslegrar heimaþjónustu hjá Ísafjarðarbæ. Þriðjudaginn 19. mars var námskeiðið endurtekið í heild sinni. Starfsfólki var því skipt niður á þessa svo daga svo sem flestir hefðu tök á að taka þátt. Í heildina voru um 100 þátttakendur.

 

Kennarar á námskeiðinu voru Helga Eyjólfsdóttir sérfræðingur í öldrunar- og lyflækningum, Berglind Indriðadóttir iðjuþjálfi hjá Farsælli öldrun og Sirrý Sif Sigurlaugardóttir félagsráðgjafi MA og fræðslustjóri Alzheimersamtakanna.

 

Miðvikudaginn 20. mars buðu samtökin svo upp á þjónustu í samstarfi við Ísafjarðarbæ. Fyrri hluta dags var Sirrý, félagsráðgjafi samtakanna, með ráðgjöf á Velferðarsviði í Stjórnsýsluhúsinu og tók á móti þeim sem höfðu bókað tíma í ráðgjöf.

Seinni partinn var opinn fræðslufundur fyrir alla áhugasama í salnum á 4. hæð Stjórnsýsluhússins. Veður setti aðeins strik í reikninginn og gerði það meðal annars að verkum að framkvæmdastjóri samtakanna, Vilborg Gunnarsdóttir komst ekki Vestur þar sem flug féll niður. Fundurinn fór engu að síður fram og góðar umræður sköpuðust.

Alzheimersamtökin vilja hrósa Hildi Elísabetu og HVest fyrir framtakið og hvetja aðrar stofnanir til að taka sér þau til fyrirmyndar. Samtökin greina frá heimsókninni á heimasíðu sinni og og lýsa yfir mikilli ánægju með heimsóknina til Ísafjarðar.

 

DEILA