Vesturbyggð: þarf ekki að auglýsa ný störf

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri.

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að ekki þurfi að auglýsa ný störf sem verða til vegna skipulagsbreytinga. Hún segir að skipulagsbreytingar leiði ekki sjálfkrafa til þess að segja þurfi fólki upp störfum og auglýsa störf laus til umsóknar.

Í skipulagstillögunum sem liggja fyrir bæjarstjórn og stefnt er að innleiða fyrir 1. maí í vor segir að tvö störf verði lögð niður starf fjármála- og skrifstofustjóra og einnig  starf forstöðumanns tækideildar Vesturbyggðar. Ný störf verða til í þeirra stað og er öðrum þeirra sem gegnir niðurlögðu störfunum boðið nýja starfið en hinum ekki og verður það starf auglýst.

Bæjarstjórinn var spurður eftirfaranfi spurningar:

Spurning er hvers vegna nýju sviðsstjórastöðurnar í fjármála- og fjölskyldusviði eru ekki auglýstar?    Er það ekki skylda að auglýsa slíkar stöður?

Svar:

„Tillögur að skipuritinu taka mið af þeim mikla og góða mannauð sem sveitarfélagið Vesturbyggð býr yfir. Hjá Vesturbyggð er ekki til að dreifa reglum um auglýsingaskyldu eins og mörg sveitarfélög hafa sett sér, en að jafnaði eru laus störf í Vesturbyggð auglýst eins og kjarasamningar sem Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að gera ráð fyrir. Í kjarasamningum sveitarfélaga í grein 11.2.1 er kveðið á um auglýsingu á lausum störfum en þar segir: „Að jafnaði skulu laus störf auglýst en heimilt er að gera undantekningar t.d. þegar um er að ræða tímabundnar ráðningar eða tilfærslu í starfi. Bent skal á að í samþykktum sveitarfélaga kunna að vera ítarlegri ákvæði um auglýsingar á lausum störfum. Skipulagsbreytingar leiða ekki sjálfkrafa til þess að segja þurfi fólki upp störfum og auglýsa störf laus til umsóknar skv. breyttu skipulagi. Skoða þarf hvort og þá hversu miklar breytingar verða á starfi, hæfisskilyrðum og aðstæðum að öðru leyti. Því eiga reglur um auglýsingaskyldu ekki alltaf við þegar um skipulagsbreytingar er að ræða.“

Tillaga að skipuriti fyrir Vesturbyggð felur ekki í sér verulegar breytingar á núverandi störfum, hæfisskilyrðum eða aðstæðum þeirra starfsmanna sem gerð er tillaga um að verði boðin störfin tvö og þar af leiðandi gerir tillagan ekki ráð fyrir að störfin tvö verði auglýst. Tillagan gerir þó ráð fyrir að starf sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs, sem er ný staða innan sveitarfélagsins, verði auglýst.“

 

DEILA