VerkVest: sjálfkjörið í stjórn og trúnaðarráð

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður VerkVest.

Í gær rann út framboðsfrestur til stjórnar og trúnaðarmannaráðs Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Aðeins barst eitt framboð, frá trúnaðarráði og varð listinn því sjálfkjörinn.

Finnbogi Sveinbjörnsson verður áfram formaður félagsins næstu tvö ár frá næsta aðalfundi að telja, en ahnn verðu væntanlega í maí.

Varaformaður verðru Bergvin Eyþórsson. Gunnhildur Elíasdóttir ritari og Kolbrún Sverrisdóttir gjaldkeri.

Varamenn í stjórn verða Ari Sigurjónsson , Brynhildur Benediktsdóttir, Ómar Sigurðsson og
Ólafur Baldursson.

Í trúnaðarráði eru 30 manns af öllu félagssvæðinu sem eru Vestfirðir að frátalinni Bolungavík.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga sagði í samtali við Bæjarins besta í gærkvöldi um framgang viðræðna um nýjan kjarasamning að síustu 10 daga hefði lítið miðað áfram. Í dag er fyrirhugaður fundur með Samtökum atvinnulífsins og rætt verður um styttingu vinnutíma og launatöflu.

Finnbogi sagði að vel hefði hins vegar gengið í viðræðum um lagfæringar á orðalagi kjarasamninga og væri það nánast frágengið mál. Þá væri í gangi viðræður aðila vinnumarkaðarins við stjórnvöld um keðjuábyrgð og vinnumansal svo og skatteftirlit. Færa þyrfti eftirlitsaðilum boðvald til að beita þvingunaraðgerðum til að ná fram úrbótum.

DEILA