Stafrænu forskotið hrundið af stað á Ísafirði

Arna Lára Jónsdóttir, verkefnisstjóri.

Stafrænt forskot er nýtt verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem unnið er í samstarfi við landshlutasamtök og markaðsstofur um allt land með stuðningi Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins.

Bæjarins besta innti Örnu láru Jónsdóttur, verkefnisstjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands eftir því hvað þetta verkefni eiginlega væri.

Arna Lára segir að það séu gríðarleg tækifæri sem liggja í því að nýta stafræna tækni og mörg fyrirtæki, ekki síst á landsbyggðinni, geta gert betur í þeim efnum. „Víða er stafræn tækni að breyta vörum, þjónustu og viðskiptalíkönum þannig að ljóst er að þau fyrirtæki sem ekki hagnýta stafræna tækni sitja eftir og hreinlega eiga ekki möguleika. Þess vegna er það mikilvægt fyrir fyrirtæki að auka þekkingu sína og getu til að bæta samkeppnishæfni sína, efla nýsköpun og auka skilvirkni. Þetta þurfa fyrirtækin að gera til að geta vaxið og orðið við kröfum viðskiptavina sinna. Með aukinni stafrænnu tækni og þekkingu geta fyrirtækin átt í árangursríkri samskiptum við viðskiptavini sína, auðveldar þeim að ná í nýja viðskiptavini og nýja markaði, auk þess sem hægt er að ná niður kostnaði.“

Stafrænt forskot er röð vefrita og vinnustofa byggt á efni frá Business Gateway í Skotlandi. Verkefnið gengur út á uppbyggingu stafrænnar hæfni í íslenskum fyrirtækjum. Áhersla er á fyrirtæki sem eru ekki brautryðjendur í hagnýtingu stafrænnar hæfni.  Markmið verkefnisins er að miðla þekkingu og aðferðum til fyrirtækja sem vilja nýta stafræna tækni til að auka samkeppnishæfni. Nýsköpunarmiðstöð hefur sett upp vefsíðu sem býður upp vefritin og aðra fræðslu eru tengist stafrænni þekkingu. www.forskot.nmi.is

„Vinnustofur verða haldnar víðsvegar um land og byrjað er á Ísafirði þriðjudaginn 5. febrúar og þaðan er förinni heitið á Akureyri. Á vinnustofunum fá þátttökufyrirtæki fræðslu um stafræna tækni og gildi hennar í nútíma samkeppni og læra hagnýtar leiðir til að nýta sér helstu tæki og tól til að efla stafrænna færni sína. Það er opið fyrir skráningu á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands www.nmi.is“ segir Arna Lára Jónsdóttir að lokum.

DEILA