Sleppingar: 135 þusund seiði á Vestfjörðum

Langadalsá.

Á Vestfjörðum var sleppt 3.000 smáseiðum og 132.300 gönguseiðum á árunum 2013-2017. Fiskistofa upplýsir þetta í svari við fyrirspurn frá Bæjarins besta.

Fyrirspurnin var send til Fiskistofu 25. október 2018 og barst svar í gær, 14. febrúar 2019. Óskað var eftir þeim fiskræktaráætlunum sem til eru og lögboðin eru og yfirlit yfir þau veiðivötn sem áætlanirnar ná til.

Af svörum Fiskistofu má ráð að engin fiskræktaráætlun er til á Vestfjörðum. Það er hins vegar skilyrði fyrir fiskrækt að slík áætlun sé til. Hafbeit og sleppingar laxaseiða eru í lögum um fiskrækt talin til fiskræktar. Er því samkvæmt lögunum óheimilt að stunda sleppingar án áætlunar, enda er eitt hlutverk slíkrar áætlunar að standa þannig að sleppingunum að vistkerfi villtra ferskvatnsfiskstofna stafi ekki hætta af slíkum framkvæmdum. Er í lögunum sérstaklega nefnt að koma í veg fyrir sjúkdóma og erfðablöndun.

Ætla má að sleppingarnar á Vestfjörðum eigi við Laugardalsá, Langadalsá og Hvanndalsá í Ísafjarðardjúpi, en það fæst ekki staðfest þar sem fiskistofa telur sér óheimilt að upplýsa það.

Á þesus fimm ára tímabili var sleppt að jafnaði um 37.000 seiðum á ári. Veiðin á síðasta sumri í Laugardalsá og Langadalsá var samkvæmt bráðabirgðatölum 435 laxar. Sé það rétt að sleppingarnar eru í ánum í Djúpinu má sjá að sleppingarnar eru mjög hátt hlutfall af „náttúrurlegum“ stofni ánna.

Sleppingar á Vestfjörðum 2013 – 2017
Ár Smáseiði Gönguseiði Fj. Vatnsfalla
2013 0 29.000 2
2014 0 40.000 3
2015 0 23.000 2
2016 3.000 20.300 3
2017 0 20.000 1
samtals 3.000 132.300 líklega 3
DEILA