Rósmundur: Vasagangan næst

Rósmundur Númason í Strandagöngunni 2019.

Rósmundur Númason er formaður Skíðafélags Strandamanna, SFS. Hann stóð í ströngu um síðustu helgi þegar 25. Strandagangan fór fram. Rósmundur hefur borið hitann og þungan af skíðastarfinu á Hólmavík og nágrenni um langt árabil. En hann lætur það ekki nægja að vinna að undirbúningi og annarri skipulagningu heldur er hann líka öflugur keppandi. Rósmundur gekk 20 km í Strandagöngunni, en sú keppni er hluti af íslandsgöngunni. Rósmundur var með 24. besta tímann af 89 sem luku keppni og er hann þó meðal elstu keppenda, 65 ára gamall.

Þegar Bæjarins besta ræddi við Rósmund á sunnudaginn var hann önnum kafinn við sérstakan skíðaleikjadag fyrir yngstu kynslóðina á skíðasvæðinu í Selárdal í Steingrímsfirði  sem lauk svo með veglegri pizzaveislu á Café Riis á Hólmavík.

Rósmundur var inntur eftir því hvort hann hygðist taka sér hvíld eftir allt atið um helgina. Hann dró nokkuð við sig svörin og að lokum upplýstist að strax um næstu helgi væri nsæta verkefni, hvorki meira né minna en sjálf Vasa gangan í Svíþjóð 90 km löng. Rósmundur sagðist hlakka til göngunnar, en þetta verður í sjötta sinn sem hann gengur hina löngu leið, sem er til minningar um fræga göngu Gustav Vasa 1520 frá Mora í Svíþjóð til Noregs og aftur til Svíþjóðar og markaði upphaf að sjálfstæðisbaráttu Svía undan Dönum sem leiddu í Kalmarbandalaginu.

DEILA