Öryrkjabandalagið: Ekkert á að tefja TR

„Lögbundinn réttur,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra,

Öryrkjabandalagið vekur athygli  á því að ekkert er því til fyrirstöðu að Tryggingastofnun ríkisins hefji útgreiðslur samkvæmt réttum útreikningi vegna búsetu nú þegar. Reiknireglan liggur fyrir og TR hefur allar upplýsingar sem þarf. Fjármálaráðherra segir mjög skýrt að  ekki þurfi sérstakar fjárheimildir til þess að fólk njóti lögbundinna réttinda.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var á Alþingi, 31. janúar, spurður út í búsetuskerðingarnar og fjárheimildir til að leiðrétta hlut þeirra sem voru hlunnfarnir af TR. Svar ráðherrans var ótvírætt:

„.Fjármögnun þess [skiptir] í sjálfu sér engu máli, vegna þess að þar er bara um lögbundin réttindi að ræða sem við verðum að uppfylla. Það er þá bara loforð sem stendur. Það er þá bara krafa sem fólk á á ríkið og það reiknast af ríkissjóði, hvort sem menn hafa fjármagnað það sérstaklega eða ekki. Við bíðum niðurstöðu þessarar yfirferðar um heildarfjárhæðina.“

Þá kemur fram í frétt öryrkjabandalagsins um málið í dag að ekki bóli enn á breytingum  þrátt fyrir að TR hafi í byrjun janúar sagst myndu kynna breytta framkvæmd í lok janúar. Minnt er á að Félagsmálaráðuneytið hefur viðurkennt að TR hafi hlunnfarið hundruð örorkulífeyrisþega um yfir hálfan milljarð króna á ári, árum og áratugum saman.

DEILA