Landbúnaður á Vestfjörðum tekur stökk upp á við

Landbúnaður á Vestfjörum hefur vaxið  mjög á síðustu árum. Í skýrslu dr. Vífils Karlssonar  ( febrúar 2019) sem nefnist LANDFRÆÐILEGT OG EFNAHAGSLEGT LITRÓF LANDBÚNAÐAR Á ÍSLANDI og var að koma út er staðbundið efnahagslegt mikilvægi landbúnaðar athugað.

Þar má sjá að 16% af heildarrekstrartekjum landbúnaðarins á árinu 2017 varð til á Vestfjörðum. Það er aðeins á Suðurlandi sem samanlagðar rekstrartekjur landbúnaðarins voru hærri.

Þetta er óvænt niðurstaða en skýrist af því að fiskeldi fellur undir landbúnað. Heildartekjur landbúnaðarins hafa vaxið úr 60 milljörðum króna á árinu 2008 í 73 milljarða króna á árinu 2017. Aukningin er  um 13 milljarðar króna og skýrist að mestu leyti með vexti í tekjum af fiskeldi.

Fram kemur í skýrslunni að fjárbinding í hefðbundnum greinum landbúnaðarins nemi 53 milljörðum króna. Tl samanburðar má nefna að fjárfesting fiskeldisfyrirtækjanna tveggja á Vestfjörðum, Arnarlax og Arctic Fish er um 21 milljarður króna.

Þá er fyrirsjáanlegt að fiskeldið á Vestfjörðum verður á þessu ári mun meira en það var 2017 og einnig má gera ráð fyrir áframhaldandi aukningu á framleiðslunni á næstu árum. Gangi eftir áætlanir um uppbyggingu í fiskeldinu á Vestfjörðum verður ekki þess langt að bíða að Vestfirðir verður sá landshluti sem mest verðmæti skapar í landbúnaði á öllu landinu.

DEILA