Krabbameinsdagurinn: 700 létust vegna krabbameina árið 2018

Alþjóðlegi krabbameinsdagurinn er á morgun, 4. febrúar. Af því tilefni er vikan tileinkuð fræðslu um ýmislegt sem viðkemur krabbameinum og forvörnum gegn þeim. Fyrirtæki eru hvött til að hafa jákvæð áhrif á heilsu starfsfólks síns.  

Á Alþjóðlega krabbameinsdeginum 2019 hefst þriggja ára herferð krabbameinsfélaga um allan heim þar sem fyrirtæki, samfélög og einstaklingar eru hvattir til að sýna stuðning, láta í sér heyra og þrýsta á stjórnvöld um aðgerðir til að fækka krabbameinstilvikum. Slagorð alþjóðlegu herferðarinnar er: „Ég er… og ég ætla…“ þar sem hverjum fyrir sig gefst færi á að lýsa sinni leið til að vinna gegn krabbameinum.

Krabbameinsfélag íslands hefur fengið fyrirtæki til liðs við sig sem skuldbinda sig til þess að láta til sín taka í baráttunni gegn krabbameinum með því að miðla upplýsingum til starfsmanna sinna og stuðla að heilsusamlegu vinnuumhverfi.

Fyrirtæki eru hvött til þess að skrá sig til leiks á markad@krabb.is og taka þátt með því að miðla efni frá Krabbameinsfélaginu. En einnig býður félagið upp á fyrirlestra í fyrirtæki, ráðgjöf eða stuðning og fjölbreytt námskeið.

Þriðji hver Íslendingur fær krabbamein

Einn af hverjum þremur Íslendingur fær krabbamein einhvern tíma á ævinni. Í dag látast 9,6 milljónir manna úr krabbameinum í heiminum á ári hverju og á Íslandi eru krabbamein önnur algengasta dánarorsökin. Árið 2018 létust tæplega 700 manns vegna krabbameina á Íslandi. Hægt væri að koma í veg fyrir að minnsta kosti þriðjung þessara dauðsfalla með auknum forvörnum, þekkingu á einkennum, snemmgreiningu og meðferð.

„Við þurfum öll að vera meðvituð um lífsstílsþætti sem eru fyrirbyggjandi gegn krabbameinum og þegar fyrirtæki auðvelda starfsfólki sínu að velja heilbrigða lifnaðarhætti styðja þau við starfsmannahópinn um leið og þau vinna gegn krabbameinum,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.  „Aukin þekking hjálpar okkur að vera vakandi fyrir einkennum, taka upplýstar ákvarðanir um heilsu okkar og takast á við ótta og misskilning um krabbamein.“

 

DEILA