Könnun MMR: Landsbyggðin velur díselbíla

Markaðsfyrirtækið MMR hefur birt könnun, sem varpar ljósi á hvernig fólk vill að bílar þeirra eru knúnir áfram. Kannað var hvort menn vildu kaupa notaða bíla sem væru díselbílar, bensínbílar eða svokallaðir rafbílar, sem eru rafmagnsdrifnar og loks metanbílar.

MMR vekur athygli á því að 26% vilja fá sér rafbíl og það hlutfall hefur hækkað úr 8% frá 2015. Það er greinilega töluverð breyting sem vert er að vekja athygli á.

En samt má líka benda á að flestir vilja fá sér díselbíla eða 44%. Það hlutfall hefur lítið lækkað frá 2015 þegar það var 47%. Meira að segja hækkar hlutfall frá 2017 til 2018 um 5%.  Bensínbíl vilja 29% og þar hefur hlutfallið lækkað frá 2015 um hvorki meira né minna en 14%. Metanið er 2% og hefur ekkert breyst.

Svo stóra breytingin frá 2015 til 2018 er að færri vilja kaupa sér bensínbíl og flestir þeirra ætla að færa sig yfir í rafmagnsbíla.

En frekari greining á könnuninni leiðir fram aðrar athyglisverðar staðreyndir.

Ein er mikill munur á afstöðu eftir búsetu. Á landsbyggðinni ætla 60% af fá sér díselbíl, en aðeins 32% á höfuðborgarsvæðinu.

Karlar vilja díselbíl og konur rafmagnsbíl. 52% karla vilja díselbíl en aðeins 32% kvenna.35% kvenna vilja rafmagnsbíl en 19% karla.

Þegar tekjur eru orðnar milljón krónur eða meira breytist afstaðan til bílakaupanna. Þá vilja aðeins 35% díselbíl og 27% vilja rafmagnsbíl. 36% vilja bensínbíl. Þetta er eini tekjuhópurinn þar sem bensínbíllinn er vinsælastur og í þessum hópi er rafmagnsbíllinn vinsæll.

Rafmagnsbíllinn er vinsælastur í næsta tekjuhópi fyrir neðan 600 – 999 þúsund kr. í heimilstekjur á mánuði 36%.

Spurningin er: hvernig er hægt að skýra þessar niðurstöður. Það er ekki sett fram túlkun í könnum MMR, en það má reyna að setja fram kenningu til skýringar.

Höfuðborgarsvæðið: frúarbíllinn er rafmagnsbíll. 

Líkleg ástæða fyrir því að díselbíllinn verður miklu frekar fyrir valinu á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu er að landsbyggðarfólkið keyrir mun oftar út fyrir heimabyggðina og þar með út á þjóðvegina meðal annars til Reykjavíkur. Vetrarfærðin er lakari þar en innanbæjar og þá þarf fjórhjólaldrifin bíl sem oft er díselbíll. Innan höfuðborgarsvæðisins er síður þörf á svo öflugum bíl.

Önnur ástæða sem örugglega hefur áhrif er að aðgengið að hleðslubúnaði fyrir rafmagsnbíla er mun lakara á landsbyggðinni og þeir bílar hafa ekki nægilegt langdrægi, og ef til vill lika að þeir eru síður fjórhjóladrifnir.

Þriðja skýringin sem kann að vera er að á Höfuðborgarsvæðinu eru frekar tveir bílar á heimili og þá virðist vera tilhneiging til þess að annar bíllinn sé rafmagnsdrifinn og mismunandi afstaða kynjanna bendir til þess að frúarbíllinn sé frekar rafmagnsbíll.

Millistéttin á höfuðborgarsvæðinu  ( 600 -999 þús kr)  fellur vel inn í þessar skýringar. Það skemmtilega er að hæsti tekjuhópurinn færir sig frá rafmagnsbíl og díselbíl yfir í bensínbíla og sá hópur er einmitt ekki hluti af millistéttinni, nema þá að hluta til.

-k

 

DEILA