Jafnrétti til náms!

Guðrún Anna Finnbogadóttir.

Undanfarið hefur verið mikil umræða um verknám og af hverju það sé ekki meiri sókn í verknámsgreinar. Ráðherra ferðamála,iðnaðar og nýsköpunar Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir taldi jafnvel að ástæðan gætu verið fordómar foreldra til verknáms.

Ég myndi þó vilja skoða betur menntakerfið áður en ég alhæfi um hlut foreldra í þessum efnum. Úti á landsbyggðinni er mikill skortur á iðnmenntuðu fólki en nálægðin við iðngreinarnar er mikil og ég tel að oft leiti hugur ungafólksins til þessara starfa.

Boðið er upp á fjarkennslu víða til að börnin geti verið lengur í heimabyggð en það er eðli málsins samkvæmt erfitt að fjarkenna iðngreinar svo að á fámennari stöðum er boðið upp á fínasta bóknám í fjarkennslu á framhaldsskólastigi. Það hjálpar þó ekki mikið til að fjölga iðnmenntuðu fólki.

Hægt er að senda börnin til Ísafjarðar, Akureyrar eða Akraness í gott iðnnám þar sem boðið er upp á heimavist. Einn hængur er þó á að flestir skólarnir eru í órafjarlægð yfir vetrartímann og almenningssamgöngur ekki í boði t.d. frá Vesturbyggð er almenningssamgöngur mjög kostnaðarsamar og fara alltaf í gegnum Reykjavík eins rökrétt og það er. Foreldrarnir þurfa að sækja alla þjónustu til Reykjavíkur og því alveg úr leið að skjótast og heimsækja framhaldsskólabörnin á Akureyri eða Ísafjörð. Sem dæmi er hægt að fljúg á Ísafjörð og leiðin er: Bíldudalur-Reykjavík-Ísafjörður-Reykjavík-Bíldudalur og kostar litlar 75.000 kr. Því miður er niðurstaðan oftar en ekki að unga fólkið gefst upp því það á lítið eða ekkert stuðningsnet í viðkomandi sveitarfélagi þar sem námið er stundað og dýrt að ferðast á milli og því ferðir stopular.

Einnig er boðið upp á gott iðnnám í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti, Borgarholtsskóla og Tækniskólanum. Fjölbreyttar og skemmtilegar námslínur sem aðeins mjög fjársterkir dreifbýlingar geta sent börnin sín í á höfuðborgarsvæðinu. Heimavist er ekki í boði og fræðilega geta fáir keypt íbúð hvað þá leigt íbúð á höfuðborgarsvæðinu fyrir utan að enginn sendir 16. ára ungling til að búa einan í íbúð þó það hafi tíðskast á síðustu öld. Þarna er þegar búið að útiloka stóran hóp ungs fólks sem áhuga hefði á iðnnámi í snyrtifræði, hárgreiðslu, tölvufræðum og fjölda annara greina.

Brá mér heldur þegar ég fór að kynna mér málin af fullri alvöru og sá hvaða valkostir eru í boði fyrir unga fólkið. Annað nám sem kannski hefur verið minna rætt um er listnám sem líkt og verknám er erfitt að kenna í annars mjög góðum bóknáms fjarkennsluskólum. Þar er aftur verið að höfða til hæfileika sem geta verið mjög miklir þó bóknám henti ekki þessum einstaklingum.

Listgreinarnar eru margar svosem myndlist, sviðslist, textílhönnun og tónlist en skapandi greinar geta verið góður grunnur í nýsköpunarstarfi. Komum við þá að enn einum veikum punkti. Unglingurinn hefur stundað nám í tónlistarskóla alla sína grunnskólatíð og nú er kominn tími til að fara í framhaldsskóla og hugurinn stefnir á að læra iðn og halda áfram í tónlistarnáminu jafnvel að komast í tónlistarskóla sem býður upp á framhaldsstig í tónlist en þá fyrst blasa við alvöru hindranir. Tónlistarskólar landsins eru reknir af sveitarfélögunum og þeir hafa enga skyldu til að taka inn nemendur úr öðrum sveitarfélögum.

Ef framhaldsskóla neminn er að læra á hljóðfæri sem biðlisti er í, þá fer hann aftast í röðina. Hinsvegar hef ég kynnt mér verðmuninn fyrir þennan nema, í einum tónlistarskóla landsins kostar veturinn 95.000 kr fyrir heimafólk en fyrir nema sem kemur frá öðru sveitarfélagi 500.000 kr. Undantekning er þó ef um er að ræða söngnám þá fæst styrkur frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga því ekki er hægt að hefja söngnám mjög ungur og þetta er gert til að jafna hlut þeirra sem hyggja á söngnám.

Setjum svo upp dæmið fyrir nemann sem getur fengið inni á heimavist og fullt fæði fyrir ca. 600.000 kr veturinn og tónlist á 500.000 kr. Hægt er að sækja um dreifbýlisstyrk auk þess sem sum sveitarfélög styrkja tónlistarfólkið sitt til náms í öðru sveitarfélagi það er þó mjög misjafnt hvernig þeim styrk er háttað. Hin leiðin er að fá einhvern góðhjartaðan í viðkomandi sveitarfélagi framhaldsskólans til að lána barninu lögheimilisskráningu, þá snarlækkar tónlistarnámskostnaðurinn en dreifbýlisstyrkur og ferðastyrkur eru lönd og leið og jafnvel hæpið að fá inni á heimavist með lögheimili í sveitarfélaginu.

Þó er til einn tónlistarmenntaskóli þar sem allir geta sótt um eða Menntaskólinn í tónlist sem staddur er í Reykjavík og þá erum við aftur að tala um að engin heimavist er í boði og tilheyrandi kostnað og erfiðar aðstæður fyrir ungling að standa á eigin fótum.

Ég leyfi mér að spyrja hvort það séu foreldrar á landsbyggðinni sem hindri börn sín vegna eigin fordóma til að fara í iðn- eða listnám eða hvort það gætu verið ytri þættir sem engan vegin geta talist á valdi foreldranna sem stjórni þessari þróun?

Fyrirmyndirnar eru margar og sterkar í heimabyggðinni þar sem á flestum stöðum eru smiðir, járnsmiðir, píparar, hárgreiðslumenn, snyrtifræðingar, organistar og tónlistarkennarar. Hinsvegar er dýrkeypt leiðin og ekki á færi allra foreldra að láta slíka draum rætast hjá börnunum sínum. Ég hef oft rætt þetta og bent á að það skjóti skökku við að það nám sem myndi skapa ungu fólki flott störf í iðnaði og listum í sinni heimabyggð sé erfitt að nálgast. Markhópurinn iðnnemar á landsbyggðinni á því ekki hægt um vik að komast í slíkt nám á meðan flestir framhaldsskólanemar á höfuðborgarsvæðinu velja bóknám þó að verkmenntaskólarnir standi þeim sannanlega til boða fyrir sama pening.

Guðrún Anna Finnbogadóttir

Framleiðslustjóri í Vesturbyggð

DEILA