Hver veitir framkvæmdaleyfi á Hornströndum?

Hornbjarg og Hornvík í baksýn.

Á síðasta fundi mannvirkja- og skipulagsnefndar Ísafjarðarbæjar var lagt fram minnisblað lögmannsstofunnar Juris slf. umveitingu  framkvæmdaleyfa  í Hornstrandafriðlandinu.

Ísafjarðarbær óskaði eftir álitinu í framhaldi af breytingum  Umhverfisstofnunar á verklagi vegna framkvæmda í Hornstrandafriðlandi.

Verklagið  hafi um árabil verið með þeim hætti að framkvæmdaaðilar sæki um framkvæmdaleyfi til Ísafjarðarbæjar, sem leiti umsagnar Umhverfisstofnunar um framkomna umsókn. Afstaða sé svo tekin til umsóknar með hliðsjón af niðurstöðu umsagnar Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun tekur sér aukið vald

Umhverfisstofnun virðist einhliða hafa tekið upp breytt verklag á árinu 2018, eftir því sem lesa má í álitinu. Fær núverandi skipulags- og byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar ekki séð að ákvörðun um breytt verklag hafi verið heimil án aðkomu bæjarstjórnar þar sem verklagið sé bundið í skipulag, auk þess sem það líti út fyrir að Umhverfisstofnun taki sér, með hinu breytta verklagi, meira vald í hendur en auglýsing um friðlandið kveður á um.

Var því leitað álits á því:

(A) hvort unnt sé að sneiða framhjá aðkomu Ísafjarðarbæjar við útgáfu framkvæmdaleyfa í friðlandinu,

(B) hvort Ísafjarðarbær geti gefið út framkvæmdaleyfi óháð því hvort leyfi Umhverfisstofnunar liggi fyrir, og loks

(C) hvort Ísafjarðarbæ beri að tilkynna framkvæmdaraðila um að hann þurfi „jafnframt“ að afla heimildar frá Umhverfisstofnun.

(A) Útgáfa framkvæmdaleyfa í Hornstrandafriðlandi

Í álitinu eru rakin ákvæði annars vegar skipulagslaga frá 2010 og hins vegar náttúruverndarlaga frá 2013. Eru ákvæðin að nokkru misvísandi varðandi stöðu sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar.  Þá er í gildi sérstök auglýsing um Friðalndið og að auki sérstakt samkomulag milli Ísafjarðarbæjar, Umhverfisstofnunar og Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps frá 1997 um vinnureglur við úthlutun byggingarleyfa í friðlandinu á Hornströndum.

Niðurstaða Juris er að „Ekki verður þannig séð að nokkur heimild sé til þess í lögum,
stjórnvaldsfyrirmælum, eða að í samningi aðila sé kveðið á um að umsókn um
framkvæmdaleyfi skuli beina til Umhverfisstofnunar. Slíkri umsókn ber lögum samkvæmt að
beina til Ísafjarðarbæjar, sem skal hins vegar leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en
leyfi er gefið út. Af gildandi auglýsingu um friðlandið má einnig ráða að Ísafjarðarbæ sé ekki heimilt að gefa út slíkt leyfi nema með leyfi Umhverfisstofnunar, þ.e. að umsögn
Umhverfisstofnunar til leyfisútgáfu sé jákvæð.“

(B) Getur Ísafjarðarbær gefið út framkvæmdaleyfi óháð því hvort „leyfi“ Umhverfisstofnunar liggi fyrir?

Svar Juris er nei. „Ísafjarðarbæ er því óheimilt að gefa út framkvæmdaleyfi án þess að leita
umsagnar Umhverfisstofnunar. Þá, eins og áður er rakið, verður að túlka ákvæði
gildandi auglýsingar um friðlandið þannig að slík umsögn verði að vera jákvæð.“

(C) Ber Ísafjarðarbæ að tilkynna framkvæmdaraðila að hann þurfi „jafnframt“ að afla heimildar Umhverfisstofnunar fyrir framkvæmdum í friðlandinu?

Hér er svarið í raun nei. „Framkvæmdaaðila ber að beina umsókn um framkvæmdaleyfi til Ísafjarðarbæjar, sem aflar umsagnar Umhverfisstofnunar. Ekki verður séð á hvaða grundvelli framkvæmdaraðili ætti að sækja um „leyfi“ Umhverfisstofnunar.“

Minnisblaðið var afgreitt þannig að  skipulags- og byggingafulltrúa var falið að óska eftir afstöðu Umhverfisstofnunar á minnisblaði Juris.

 

DEILA