Hagstofan hefur ekki upplýsingar um tekjur af laxveiði

Langadalsá.

Hagstofa íslands segist ekki hafa neinar upplýsingar um tekjur af lax- og silungsveiði. Í lok október á síðasta ári leitaði Bæjarins besta til Hagstofunnar og óskað eftir upplýsingum um tekjur af veiðihlunnindum, lax- og silungsveiði.

Þau svör fengust að „Samantekt yfir tekjur af lax- og silungsveiði eru (eftir því sem við best vitum) hvergi til. Sala á veiðileyfum telst vera „leiga á landi“ og er ekki virðisaukaskattskyld“.

Í svarinu sagði að þetta væri hins vegar nokkuð áhugaverð fyrirspurn og það yrði athugað hvað finna megi  ársreikningum og skattagögnum, t.d. ársreikningum veiðifélaga.

Eftir tvo mánuði var leitað eftir hvers Hagstofan hefði orðið áskynja og þá komu þessu stuttaralegu svör:

„Veiðifélög eru ekki skyldug til að skila ársreikningum þannig að þau gögn eru yfirleitt ekki til staðar. Þannig að því miður erum við með ansi lítið af gögnum um þess háttar starfsemi.“

Benti starfsmaður Hagstofunnar á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um virði lax- og silungsveiða sem kom út í nóvember. Í þeirri skýrslu kemur fram að Hagfræðistofnunin hafi gengið erfiðlega að fá svör við skriflegum fyrirspurnum hjá einstökum veiðifélögum og var því haft samband símleiðis við forráðamenn nær allra veiðifélaga á landinu og fengust upplýsingar með símtölum.

Niðurstaðan er þá sú að Hagstofan hefur engar upplýsingar um þennan þátt efnahagsstarfseminnar og virðist ekki sýna því áhuga að afla þeirra. Upplýsingar hjá embætti Ríkisskattstjóra um tekjur og efnahag einstakra veiðifélaga liggja því aðeins fyrir að veiðifélögin séu sjálfstæður skattaðili.

Þannig eru engir ársreikningar á skrá Ríkisskattstjóraembættisins fyrir  Veiðifélag Langadals/Hvannadalsár né heldur fyrir Veiðifélag Laugardalsár.

DEILA