Fyrir réttri viku var tilkynnt að ný stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið á Hornströndum hefði formlega tekið gildi. Meðl nýrra reglna voru sérstakar reglur um umferð og dvöl.
Reimar Vilmundarson segir í samtali við Bæjarins besta að eftir að hafa kynnt sér reglurnar væri hann hættur með ferðaþjónustuna í Bolungavík. Reimar er landeigandi og hefur komið upp gistingu fyrir 22 gesti auk þess að bjóða upp á hreinlætisaðstöðu. Hann segir að nýju reglurnar geri útslagið og nú sé nóg komið. Á hans svæði sé nú óheimilt að koma með stærri hópa en 15 manns. Það þýðir vannýtingu á gistingunni og takmarki tekjumöguleika hans.
Viðbrögð hans voru orðrétt:
„Til að aðstoða Umhverfisstofnun í landvernd í friðlandinu hef ég ákveðið að loka gistiskálanum og salernisaðstöðunni sem eg hef verið með í Bolungavík á Ströndum.
Það minkar vonandi þá umferð sem þarna virðist ógna öllu lífríki.“
Þá er í nýju reglunum landverði færð heimild til þess að loka svæðum. Þar segir:
„Landverði eða umsjónarmanni svæðisins er heimilt að loka tímabundið viðkvæmum svæðum, vegna gróðurverndar, lífríkisverndar eða við erfiðar gönguaðstæður og beina gestum svæðisins um aðrar leiðir.“
Reimar segir um þetta að göngustígar á svæðinu hafi látið á sjá og séu hreinlega hverfa vegna of fárra ferðamanna , en „með smá verndunar átaki tekst okkur að láta þá hverfa.
Þakka þeim sem hafa komið og dvalið þarna.“
Fram kom hjá Reimari Vilmundarsyni í viðtali við Bæjarins besta að samráð við hann sem landeiganda hafi ekkert verið.