Fundur um nýju reglurnar í friðlandinu á Hornströndum

Vestfjarðastofa hefur boðað til fundar á morgun, miðvikudaginn 27. febrúar 2019 á Ísafirði með ferðaþjónustuaðilum.

Fulltrúi Umhverfisstofnunar, Kristín Ósk Jónasdóttir, mun á þeim fundi fara yfir nýsamþykkta stjórnunar- og verndaráætlun um friðlandið á Hornströndum.

Kristín mun flytja erindi um áætlunina og síðan verður tækifæri til spurninga og spjalls.

Fundurinn verður á Hótel Ísafirði og hefst kl 8:30.

Nýlega hafa tekið gildi sérstakar reglur um umferð og dvöl í friðlandinu og eru sumar þeirra þegar umdeildar.

Nýjar reglur um hópastærð hafa verið gegnrýndar af aðilum sem hafa veitt ferðamönnum þjónustu. Þar segir:

Aðeins er heimilt að fara með hópa 30 manns eða færri á vestara svæði og skipulagðar
hópferðir skulu ekki vera fjölmennari en 15 á austara svæði. Séu hópar stærri skal haft samráð við Umhverfisstofnun.

Fleiri bönn er a finna í reglunum sem eru birtar í 15 tölusettum liðum. meðal annars er bannað að vera á reiðhjóli, bannað að hafa hund, kvikmyndataka og ljósmyndun er háð leyfi Umhverfisstofnunar. Landverði verður heimilt að loka svæðum tímabundið, farþegar á skipum mega ekki fara í land ef fleiri en 50 eru um borð, óheimilt er að lenda þyrlum og flugvélum nema að fengnu leyf Umhverfisstofnunar. Drónaflug er bannað. Bannað er að tjalda utan skilgreindra tjaldsvæða og umferð skipa nær en 115 að fuglabjörgum er bönnuð svo það helsta sé nefnt.

DEILA