Friðað til óbóta

Það er löngu kominn tími til þess að ræða það í fullri alvöru hvert stefnt er með friðun Hornstranda. Á vef Umhverfisstofnunar segir um tilgang friðlýsingarinnar frá 1975 að hann sé að svæðið geti þróast án afskipta mannsins. Þarna er alvarleg meinvilla sem er að draga langan slóða á eftir sér.

Hlutverk eyðibyggðarinnar

Svæðið hefur verið í byggð frá landnámi að undanskildum síðustu 6 – 7 áratugum. Það þýðir að  svæðið hefur verið í byggð 95% af þeim tíma sem land hefur verið byggt. Það er afbrigðilegt ástand að svæðið er ekki byggt um þessar mundir og er af þeim sökum ekkert sérstakt menningarlegt eða landfræðilegt varðveislugildi fólgið í því að koma í veg fyrir þróun á búsetu og nýtingu svæðisins í samræmi við möguleikana hverju sinni. Friðunin og yfirlýst markmið hennar er ásetningur til þess að frysta tiltekið tímabundið ástand og nota það sem sýnisgrip um horfinn tíma þar sem önnum kafnir landsmenn geti gengið inn í á góðum sumardegi og náð tengingu við náttúruna og liðinn tíma.

 

Þetta er ekki slæmur tilgangur og var eflaust að mörgu leyti mörgum þeim sem þurfti að hrökklast frá svæðinu og skilja eftir sögu, minningar og eigur sínar til hugarhægðar og gleði þegar unnt var að snúa um stuttan tíma aftur til heimahagana. En þjóðfélagið þróast og breytist  og viðhorfin eru bundin hverjum tíma fremur en löngu liðinni fortíð. Það  er slæmt fyrir svæði að festast í afmörkuðum bás sem ekki má breyta eða leyfa að þróast með þjóðfélaginu.

Yfirfært hlutverk

Ekki er mikill vafi á því að einmitt þetta hlutverk Hornstarnda, nyrsta hluta Vestfjarða, sem eyðibyggðar fyrir þjóðina, er að yfirfærast yfir á Vestfirði alla. Það kemur fram í hverju málinu á fætur öðru að háværir og áhrifamiklir hópar innan sem utan Vestfjarða, en þó aðallega utan Vestfjarða, telja að meginhlutverk Vestfjarða sé að vera hin ósnerta náttúra fyrir landsmenn sem er haldið til haga til friðþægingar fyrir umbreytingu landsins annars staðar , einkum á Höfuðborgarsvæðinu.  Friðþægingin felst í því að þessir baráttuhópar samþykkja nánast hvaða breytingar sem er á landi, fjörum, hrauni, menningarminjum jafnvel þeim elstu í kvosinni í Reykjavík, að ekki sé talað um kirkjugarða. Allt þetta er samþykkt og stimplað sem gjald fyrir framfarir og bætt lífskjör vegna þess að fyrir vestan er búið að taka frá svæði sem verður varðveitt eins og það var í á síðustu öld.

Það er búið að skrifa á Vestfirði að þeir eiga að vera frystir eins og friðlandið á Hornströndum. Það er búið að yfirfæra hlutverk Hornstrandanna á Vestfirði alla. Af þeim sökum er mannfólkið á Vestfjörðum í víkjandi hlutverki. Það er búið að friða til óbóta.

 

Það má ekki virkja

Það er  lagst gegn því að virkja Hvalá. Vestfirðingar skulu ekki láta hvarfla að sér að Landvernd og aðrir hópa sanntrúaðra láti það átölulaust að virkja annars staðar á Vestfjörðum, svo sem í Skjaldfannardal, Ísafjarðardjúpi og  á Rauðasandi svo nefndir séu nokkrir álitlegir virkjunarstaðir. Nei, öðru nær. Það verður barist gegn þeim öllum, þeir verða allir dæmir óásættanleg spjöll á náttúrunni. Það verður lagst gegn línulögnum af sömu ástæðum.

Það má ekki leggja veg

Það verður haldið áfram að berjast gegn vegagerð á Vestfjörðum þar sem nokkur kostur er að tengja hana við náttúruna rétt eins og gert hefur verið um árabil í Þorskafirði. Á mesta framfaraskeiði í gróðurfari á Vestfjörðum um langt árabil, sérstaklega í birkigróðri, er látið eins og himinninn sé að farast þótt nokkur tré falli fyrir nýjum vegi. Samtök á landsvísu um náttúruvernd og heill stjórnmálaflokkur gera það að grundvallaratriði í tilveru sinni að koma í veg fyrir þær framfarir sem hafa orðið annar staðar.

það má ekki skapa störf

Best kemur eyðibyggðastefnan fram þegar kemur að atvinnusköpuninni. Laxeldi í sjó er kjörið á Vestfjörðum. Það var ákveðið fyrir 15 árum að það væri alveg sérstaklega upplagt á Vestfjörðum og skyldi vera bannað að mestu annar staðar. Þegar draumur Vestfirðinga að fá að vera fullgildir þátttakendur í þjóðfélagi í þróun til framfara verður raunhæfur veruleiki, verður uppnám í þjóðfélaginu. Vísindastofnunin, Hafrannsóknarstofnun breytist í áróðursmaskínu fyrir minni hagsmuni stangveiðinnar og slæst í hópinn með opinberum stofnunum eins og Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun sem yfirfæra  eyðibyggðastefnu Hornstandanna yfir á Vestfirði alla.

 

Hér þarf að stöðva óheillaþróunina. Hér þarf að stinga niður fæti. Nú þurfa Vestfirðingar að gera öðrum það ljóst að Vestfirðir eru hluti af þjóðfélaginu og landinu og muni þróast og taka framförum á þeim forsendum sem íbúarnir kjósa sér. Vestfirðir verða aldrei stækkuð útgáfa af Hornströndum stjórnað af yfirgangsömum samtökum og  stofnunum.

Kristinn H. Gunnarsson

 

DEILA