Fjárdráttur hjá Ísafjarðarbæ

Greint er frá því í Fréttablaðinu í morgun að starfsmaður á velferðarsviði Ísafjarðarbæjar hafi dregið að sér fé af reikningum skjólstæðinga  velferðarsviðsins á árunum 2015 – 2018 og nemi fjárhæðin milljónum króna.

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri sagði við Bæjarins besta að málið hafi verið komið upp áður en hann kom til starfa.

„Mín aðkoma, í samstarfi við sviðsstjóra velferðarsviðs, var fyrst og fremst að tryggja að bærinn myndi bæta skjólstæðingunum fjárhagslegan skaða og sækja málið fyrir þeirra hönd. Við höfum líka hert eftirlitið eftir að málið kom upp. Nú yfirförum við allar færslur mánaðarlega og höfum breytt vinnulagi.“

Guðmundur vildi ekki svara því hve há fjárhæðin er né því hve margir skjólstæðingarnir voru sem urðu fyrir barðinu á fjárdrættinum.

„Heildarupphæðin hleypur á nokkrum milljónum. Þetta voru margar færslur. Ég vil síður gefa út nákvæma upphæð að svo stöddu. Þá finnst mér ekki rétt að upplýsa frekar um skjólstæðingana. Við það eykst hættan á að hægt sé að rekja þær upplýsingar niður á einstaklinga í vestfirska fámenninu. Það myndi ég aldrei vilja.“

 

 

DEILA